Fréttir

VILTU VERÐA LEIKARI? UMSÓKNARFRESTUR UM NÁM Á LEIKARABRAUT OPNAR 2. OKTÓBER

Mynd: LHÍ

Sviðslistadeild listaháskólans opnar fyrir inntöku á leikarabraut skólans þann 2. Október. Að inntökuferli loknu er allt að 10 umsækjendum boðin skólavist.

Umsækjendur skulu undirbúa 3 verkefni sem samanlagt mega ekki taka meira en 6 mínútur í flutningi. Tvö þeirra skulu vera eintöl. Annað eintalið skal vera í bundnu máli (leiktexti, ekki ljóð). Hitt eintalið skal vera leiktexti í óbundnu máli. Þriðja verkefnið skal vera eintal, atriði eða gjörningur, sem umsækjandi telur að endurspegli hann og hans hugðarefni. Þessi þáttur má taka það form sem umsækjandi telur við hæfi. En hér er hægt að finna nánari upplýsingar um umsóknar- og inntökuferli.

Markmið leikarabrautar er að útskrifa víðsýna og skapandi listamenn, sem búa yfir þeirri tækni og þekkingu, sem sviðslistaumhverfi nútímans kallar á. Lögð er áhersla á að vekja með nemandanum forvitni og áræðni, til að takast á við hin margvíslegu viðfangsefni námsins.

Mikið er lagt uppúr því að nemandinn tileinki sér sjálfstæði, sjálfsaga og fagmennsku, hann geti unnið jafnt einn á báti, sem og í hóp, hann ögri sjálfum sér til að hugsa út fyrir ramman en hafi jafnframt fullt vald á þeirri leiktækni, sem lögð er til grundvallar í náminu.

Á fyrsta ári leikarabrautar fær nemandinn góða undirstöðu í tæknigreinum. Kennd er raddbeiting, hreyfing og leiktúlkun, auk leiklistarsögu og söngs, þar sem stuðst er við svokallaða Complete Vocal Technique. Kenningar sem stuðst er við í leiktúlkun taka í megin dráttum mið af fræðum Konstantíns Stanislavski og arfleið hans, þótt önnur nálgun komi einnig við sögu. Sameiginleg námskeið allra brauta deildarinnar eru mikilvægur þáttur námsins á þessu tímabili. Nemandinn tekur einnig þátt í kór, sem starfræktur er við deildina.

Á öðru ári er haldið áfram að dýpka tæknikunnáttu nemandans á öllum sviðum. Meðfram tímum í söng, kór, rödd og hreyfingu, fær hann kennslu og þjálfun í flutningi á verkum Forn Grikkja, Shakespeare og í leikhúsi líkamans (Physical Theatre). Á öðru ári fær nemandinn einnig kennslu í kvikmyndaleik og þeim vinnuaðferðum sem sá miðill kallar á.

Þriðja árið er ár úrvinnslu. Lögð er áhersla á að efla skilning nemandans á ólíkum aðferðum leikhússins. Nemandinn nýtur enn kennslu í tæknigreinum s.s rödd, hreyfingu og söng, en stefnumótið við áhorfandann fær nú síaukið vægi. Stórum námskeiðum, þar sem tekist er á við leikverk frá 20.öld, klassík og samsettar aðferðir,(devised), lýkur með sýningum fyrir áhorfendur, undir merkjum Nemendaleikhússins. Árinu lýkur með formlegri útskriftarsýningu.

- -

Upp