Fræðsla

Viðkvæmt ástand innan Þjóðleikhússins

Mynd: Fréttablaðið/Ernir

Stjórn Félags íslenskra leikara (FÍL) hefur verið falið að senda bréf til Þjóðleikhúsráðs og til ráðherra menningarmála þar sem kvartað er yfir aðgerðaleysi ráðherrans og ráðsins vegna athugasemda sem borist hafa vegna hegðunar Ara Matthíassonar þjóðleikhússtjóra. Kvartanir hafi borist ráðinu og ráðherranum vegna samskipta leikhússtjórans við félagsmenn FÍL en ekkert hafi verið að gert. Þetta var niðurstaða opins fundar FÍL á fimmtudag. Fundurinn ákvað einnig að krefjast þess að Þjóðleikhúsráð fái utanaðkomandi sérfræðing í vinnuvernd og mannauðsmálum til að fara ofan í kjölinn á samskiptum þjóðleikhússtjóra við nokkurn fjölda listamanna sem starfað hafa fyrir hann.

Formlegar kvartanir hafa borist vegna leikhússtjórans, meðal annars frá FÍL. Kvartanirnar eru mis­alvarlegar en lúta meðal annars að samningsbrotum, hegðun og erfiðum samskiptum og spanna nokkurra ára tímabil.

Þá hafa formlegar kvartanir einnig ratað á borð ráðherra málaflokksins, Lilju Alfreðsdóttur, sem er yfirmaður þjóðleikhússtjóra. Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og allar meiriháttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn eru bornar undir ráðið. Það vinnur með þjóðleikhússtjóra að langtímaáætlun um starfsemina. Árleg starfs- og fjárhagsáætlun skal lögð fyrir ráðið sem hefur eftirlit með framkvæmd hennar.

Fréttablaðið hefur rætt við fagfólk í stétt listamanna sem ber saman um að erfið staða sé komin upp í Þjóðleikhúsinu. Menntamálaráðuneytið auglýsti á dögunum starf leikhússtjóra, en ráðið er í fimm ár í senn. Skipun Ara rennur út 1. janúar 2020 og samkvæmt lögum skal ætíð auglýsa embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils.

Stuttu fyrir páska sendi lögmaður FÍL bréf á Þjóðleikhúsráð og þjóðleikhússtjóra þar sem kvartanir sem borist hafa vegna hans voru teknar saman. Þá sagði í bréfinu að eðlilegt væri að taka tillit til þessara atriða þegar ráðið væri í stöðu þjóðleikhússtjóra, til jafns við það sem vel er gert í leikhúsinu, en rekstur hússins hefur til að mynda gengið vel með Ara við stjórnvölinn. Bréfið var síðan tekið fyrir á Þjóðleikhúsráðsfundi á föstudaginn fyrir rúmri viku, þann 3. maí.

Leikarar í Þjóðleikhúsinu funduðu vegna málsins síðastliðinn þriðjudag á nokkuð tilfinningaríkum fundi. Sumir leikarar könnuðust við lýsingar á framkomu Ara, en aðrir ekki. FÍL fundaði á fimmtudag, meðal annars til að ræða stöðuna í leikhúsinu, líkt og áður kom fram.

Grein frá visir.is

- -

Upp