Fréttir

Unnur Ösp flutti magnþrungna ræðu á RIFF

Mynd: Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors (mbl)

Unnur Ösp Stefánsdóttir leikkona, flutti magnþrungna ræðu við setningu alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar RIFF í Hafnarhúsinu á fimmtudaginn. Fyrir neðan má lesa ræðuna í heild sinni.

“Virðulegi borgarstjóri, ágæta samkoma.

Ég ætti sjálfsagt að hneykslast á fjárframlögum stjórnvalda til kvikmyndagerðar eða skortin á fjármagni í einni stærstu útflutningsgrein okkar Íslendinga. Ég ætti líklega að hrauna yfir strákana fyrir að gera ekki nógu margar bíómyndir um konur. Ég ætti pottþétt að hvetja kynsystur mínar til að vera meira áberandi, taka meira pláss, hafa sterkari rödd og gera fleiri kvikmyndir.

En ég ætla ekki að gera neitt af þessu. Þetta liggur í augum uppi.

Í stað þess ætla ég að gerast persónuleg.

Ég átti brenglaða æsku. Uppeldi mitt var afbrigðilegt. Ég ólst upp með Stanley Kubrick og Woody Allen. Meryl Streep var vinkona mín og Dustin Hoffman kærastinn minn. Gott ef Jack Nickolson leit ekki einstaka sinnum við. Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu truflandi var að umgangast alla þessa sterku karaktera sem saklaust, áhrifagjarnt barn. Þau voru stanslaust að hrista upp í tilveru minni. Gengu á mig með krefjandi spurningum, sýndu mér inn í nýja heima, fengu mig til að leyfa mér að dreyma um framtíðina. Fengu mig til að hræðast framtíðina. Stundum hló ég með þeim, stundum að þeim. Við tókumst auðvitað á eins og allir góðir vinir gera og einstaka sinnum grétum við saman.

Á meðan ég hefði átt að vera í feluleik með jafnöldrum mínum var ég að reyna að ákveða hvort Billy ætti að vera hjá pabba sínum eða mömmu í Kramer vs. Kramer. Á meðan ég átti að vera að læra undir próf var ég að reyna að peppa Dustin upp sem var á leið í prufu í Tootsie af því hann fékk enga rullu sem karl…eitthvað átti hann nú eftir að fá sjokk þegar hann breytti sér í kvenmann og hélt að það myndi ganga betur! Á meðan ég hefði átt að vera í sleik í partýi sat ég skelfd með tvíburunum á löngum göngum fjallahótelsins í The Shining að reyna að átta mig á geðklofa og öðrum lífsins óhugnaði. Sem sagt algjört rugl.

En eftir á að hyggja þá mótuðu þessir kunningar mínir mig mikið, höfðu djúpstæð áhrif á alla mína tilveru og framtíð. Kenndu mér. Vökvuðu mig með dómgreind og siðferði. Upplýstu mig og örvuðu. Allar stundirnar sem við eyddum saman söfnuðust upp og urðu hluti af mér. Hluti af sjálfsmynd minni, hluti af lífsýn minni og hugmyndum mínum um sjálfa mig og heiminn. Og mér fannst ég í alvörunni þekkja þetta fólk. Það átti stað í hjarta mínu og hafði gríðarleg áhrif á veröld mína og sjónarhorn. Eins og listir geta gert og eiga að gera. Listir göfga. Listir breyta. Listir hreyfa. Listir móta.

Það hefur verið svolítið klikkað að fylgast með byltingunni sem hefur átt sér stað að undanförnu í íslensku samfélagi. Hvernig samtakamáttur fólks breytir gildum, byltir, umturnar, umvefur!

En það var ekki bara út af einni stelpu sem afhjúpaði sársauka sinn og barðist fyrir réttlæti. Það spratt líka úr menningarlega samhenginu sem þessi stúlka kom úr. Það spratt úr öllum litlu samfélagsmiðla byltingunum, druslugöngunum, sjónvarpsseríunum, bíómyndunum og blóðsúthellingunum sem við höfum orðið vitni að og tekið þátt í að skapa. Allt í einu fékk rödd þessarar stúlku vægi. Allt í einu felldi facebook stadus hennar heila ríkisstjórn. Samfélag hennar var breytt. Það var tilbúið til að hlusta. Meðal annars útaf listum og samfélagslegu samhengi.

Þegar Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands missti það út úr sér á síðustu Edduhátíð að kvikmyndagerð væri auðvitað bara afþreying kom það eins og blaut tuska í andlitið á öllum þeim aragrúa kvikmyndagerðafólks sem sat í salnum og eins okkar sem heima sátum og hlýddum á orð forseta okkar. Við erum allt annað en bara afþreying. Við erum það auðvitað líka og stundum en í grunninn erum við eitt mikilvægasta aflið í nútímasamfélagi. Við erum hreyfiafl, áhrifamaskína sem fær fólk til hugsa, skoða, ræða, pæla, skilja, finna til. Við erum grunvöllur þessarar stúlku til að knýja fram breytingar. Við erum rödd samfélagsins.

Þegar að við fjölluðum um þöggun og leyndarhyggju stjórnmálamanna varðandi kynbundið ofbeldi og barnaníð í sjónvarpsþáttaseríu nýverið fannst okkur það pínku banalt, mögulega ótrúverðugt, soldið ýkt. Aldrei nokkurn tímann hefði okkur órað fyrir því hvílíkri bombu við áttum von á í raunheimum.

Við eigum að vilja breyta heiminum með listum. Ekkert minna. Hreyfa við samfélaginu. Því við mótum einstaklinga líkt og Kubrick og co gerðu í minni barnæsku.

Við erum aflið sem á von um að ná til innsta kjarna manneskjunar. Hrista upp í henni. Sýna henni samhengi, nýtt sjónarhorn, leyfa henni að finna til, gráta, sturlast, reiðast og vakna. Við erum aflið sem getur sýnt inn í heima og aðstæður sem geta breytt afstöðu fólks til eigin vanmáttar, fengið okkur til að vilja hafa áhrif á eigið líf og annarra. Við erum sko allt annað en bara afþreying! Við erum galdur. Við erum sprenging.

Við ætlum að færa fjöll, vera current. Við ætlum að vera óþægileg og þægileg. Við ætlum að hafa hátt en líka að vera næm. Við ætlum að eiga erindi en ekki bara drepa tíma fólks.

Ég vona að börn, á öllum aldri, eigi sem flestar brenglaðar, nærandi og gefandi stundir með nýju “vinum” sínum á hvíta tjaldi þessarar gómsætu kvikmyndahátíðar.

Gleðilega hátíð!”

- -

Upp