Gagnrýni

Undursamleg sýning um sammannlega reynslu

Ljósmynd: Þjóðleikhúsið

Leikdómur Guðrúnar Baldvinsdóttur, einnig birtur í Víðsjá.

Fjallar um sammannlega reynslu

„Í síðustu viku var verkið Faðirinn eftir franska leikskáldið Florian Zeller frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Zeller er ein skærasta stjarnan í franska leikhúsheiminum en hann er fæddur árið 1979 og hafa verk hans notið hafa mikilla vinsælda undanfarin ár. Árið 2014 hlaut hann síðan hin virtu Moliére verðlaun fyrir FöðurinnLe Père.

Það er Kristín Jóhannesdóttir sem leikstýrir uppfærslu Þjóðleikhússins og Eggert Þorleifsson fer með hlutverk aðalpersónunnar, Andrés.

Í stuttu máli má segja að hér sé á ferð dásamleg sýning sem fjallar um sammannlega reynslu, það að eldast og þá erfiðleika sem oft fylgja því að elska þá sem standa okkur næst.

Mynd með færslu

Veröldin verður sífellt órökréttari

Í verkinu fylgjumst við André, eldri manni sem glímir við aldur sinn, hann er farinn að tapa áttum og minnið farið að gefa sig. Dóttir hans, Anne, og eiginmaður hennar reyna að finna lausnir við þeim vandamálum sem aldur Andrés ber í för með sér en missirinn verður áþreifanlegur þótt enginn sé fallinn frá.

Sagan í verkinu er sögð frá sjónarhorni Andrés og því eru áhorfendur settir í spor hans frá fyrstu mínútu. Við sjáum veröldina með hans augum en þessi veröld verður sífellt órökréttari og erfitt verður að treysta því sem fyrir augu ber. Erfiðleikar gamla mannsins eru grátbroslegir, ekki síst þegar tortryggnin í garð annars fólks ber hann ofurliði. Tíminn verður að teygjanlegri mælieiningu sem André reynir að ná taki á og því meira sem hann missir tökin á tímanum því ljósara verður það fyrir okkur áhorfendunum að okkar upplifun á heldur ekki við rök að styðjast.

Þótt sagan sem sögð er á sviðinu sé ef til vill einföld má einnig sjá glitta í erfiða sögu fjölskyldunnar. Faðirinn hefur misst stöðu sína sem harðstjóri heimilisins en er nú orðinn ósjálfbjarga og þarf að treysta á dóttur sína. Það er Harpa Arnardóttir sem er í hlutverki dótturinnar Anne, og Þröstur Leó Gunnarsson leikur eiginmanninn. Samspil þeirra Hörpu og Eggerts var fallegt og þau náðu að koma erfiðu sambandi feðginanna afar vel til skila. Senurnar þar sem hjónin voru tvö ein á sviðinu voru síðan átakanleg og sorgleg og sýndu þau Harpa og Þröstur Leó vel hvernig sjúkdómur gamla mannsins yfirtekur líf allra. Þau leita í vínið til þess að deyfa sig og að lokum grátbiðja þau hvort annað um að tala bara um eitthvað annað.

Mynd með færslu

Hvaða fólk er þetta eiginlega?

Þau Ólafía Hrönn og Sveinn Ólafur Gunnarsson ganga í ýmis hlutverk en þau eru André alltaf ókunnnug. Stundum eru þau nánir fjölkyldumeðlimir og stundum nýtt hjúkrunarfólk. Við sjáum þau með augum Andrés og þurfum við því alltaf  að svara spurningunni með honum: Hvaða persónur eru þetta eiginlega?

Edda Arnljótsdóttir leikur síðan hjúkrunarkonuna Lauru sem virðist vera sú eina sem André líður vel í kringum. Samband þeirra er kómískt og André leikur á als oddi til þess að hrífa hina ungu hjúkrunarkonu. Hún sýnir honum umburðarlyndi sem dóttir hans hefur ekki, enda býr hún ekki yfir sömu vitneskju og dóttirin um fyrra líf hans. Hún getur notið þess að þekkja hann í núinu án þess að sjá þá sögu sem ekki er lengur hluti af honum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Eggert Þorleifsson og Kristín Jóhannesdóttir vinna saman og er hér enn eitt dæmið þar sem unnið hefur verið með persónu af alúð, bæði í meðförum leikarans og leikstjórans. Persóna Andrés mótast af ótalmörgum smáatriðum og verður til þess að við sjáum hann bæði sem manninn sem hann er í dag og manninn sem hann var þá.

Mynd með færslu

Allt spilar saman

Þessi sýning er gott dæmi um leikhús þar sem allir hlutar listaverksins passa saman, textinn og uppfærslan, leikurinn og sviðsmyndin. Verk Zellers hefur þá eiginleika að þótt sagan sé einföld þá verða atvikin í baráttu Andrés áþreifanleg og allir geta tengt við einhvern hluta af því sem hann og aðstandendur hans ganga í gegnum. Verkið er fyndið og sorglegt í senn en umfram allt yfirmáta mannlegt.

Þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar er unnin af virðingu við texta franska leikskáldsins enda var ekki eitt augnablik þar sem textinn var ósannfærandi eða leikararnir hnutu um undarlegt orðalag. Samræðurnar voru fullmótaðar og ljóðræna í texta Zeller komst vel til skila, þá sérstaklega undir lok verksins þegar veruleiki Andrés varð sífellt óljósari.

Leikmynd Stígs Steinþórssonar skapaði síðan umgjörð um þetta töfrandi leikhús. Hvítar teygjur mótuðu veggi sviðsins sem voru notaðir bæði með ljósum og hreyfingum sem gerðu það að verkum að á köflum var ekkert áreiðanlegt í heimi Andrés.  Lýsingin er notuð á skemmtilegan hátt til þess að fleygja áhorfendunum mitt inn í atburðarrásina rétt eins og André líður þegar hann kannast skyndilega ekki við umhverfi sitt. Tímaskyn hans er annað en persónanna í kringum hann en við fylgjum þó hans skynjun, ekki þeirra.

Mynd með færslu

Fær mann til að hlæja og gráta

Sýningin Faðirinn er undursamleg sýning sem fær mann til þess að hlæja og gráta en það sem stendur upp úr eru lokasenur verksins þar sem ljóðrænan nær yfirhöndinni og Kristín túlkar á sinn einstaka hátt.

Ég held að flestir hafi verið sammála um ágæti sýningarinnar eftir frumsýninguna síðastliðinn fimmtudag. Þegar leiksýning nær tökum á manni með mannlegum tilfinningum, samlíðan og fegurð getur maður vart orða bundist og því segi ég, förum öll og sjáum Föðurinn í Þjóðleikhúsinu.“

- -

Upp