Lífsstíll

Ný verslun Michelsen að Hafnartorgi

Fjórða kyn­slóðin tek­ur senn við rekstr­in­um af Frank Ú. Michel­sen úr­smið. Áhugi lands­manna á vönduðum úrum eykst jafnt og þétt en með nýrri versl­un á Hafn­ar­torgi tekst von­andi að fjölga er­lend­um viðskipta­vin­um hjá þessu rót­gróna fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki. Bestu úrin geta verið góð fjár­fest­ing sem auðvelt er að koma í verð eða láta ganga í erfðir, en hugsa þarf vel um þessa flóknu gripi og láta yf­ir­fara á fimm ára fresti, eða þar um bil.

Komið er að tíma­mót­um í langri sögu Michel­sen úr­smiða því inn­an fárra daga opn­ar ný og glæsi­leg versl­un, Michel­sen 1909, á besta stað á Hafn­ar­torgi. Þar mun Frank Ú. Michel­sen smám sam­an færa í hend­ur sona sinna rekst­ur sem á sér ein­staka sögu.Það er viðeig­andi, og boðar von­andi gott, að nýja versl­un­in er steinsnar frá þeim stað þar sem afi Franks, Jörgen Frank Michel­sen, steig fyrst á land í Reykja­vík­ur­höfn árið 1907.

„Afi var sam­ferða Friðriki VIII. Dana­kon­ungi í kon­ung­legri heim­sókn til Íslands það ár, og hafa bæði hann og kon­ung­ur gengið frá borði ein­mitt hér, þar sem gamla bryggj­an var – sú sama og kom aft­ur í ljós þegar haf­ist var handa við jarðvegs­fram­kvæmd­ir á svæðinu,“ seg­ir Frank en eins og les­end­ur muna var bryggj­an friðuð þegar hún upp­götvaðist á ný, og mynd­ar núna hluta af götu­mynd­inni; nokk­urs kon­ar aflíðandi torg milli Hafn­ar­torgs og gamla Toll­húss­ins.

J. Frank var úr­smíðameist­ari og hafði ný­lokið herþjón­ustu í stór­skota­liði danska hers­ins þegar hann frétti af lausu starfi á Sauðár­króki, á úr­smíðaverk­stæði Jó­hann­es­ar Norðfjörð. Frank bend­ir á að Sauðár­krók­ur hafi á þess­um tíma iðað af lífi, verið ein af þunga­miðjum ís­lensks at­vinnu­lífs, og nóg af verk­efn­um þar fyr­ir fær­an úr­smið. Þá hafi það ef­laust verið Jörgen til happs að ákveða að leita tæki­fær­anna á Íslandi um þetta leyti, enda brast mik­ill hörm­unga­tími á í Evr­ópu skömmu síðar.

Hæfi­leika­rík­ur karllegg­ur

Á Sauðár­króki rakst Jörgen á Guðrúnu Páls­dótt­ur, snotra stúlku sem var vinnu­kona hjá ein­um af brodd­borg­ur­um bæj­ar­ins. Þau eignuðust tólf börn og komust ell­efu á legg, þar á meðal Franch B. Michel­sen, faðir viðmæl­and­ans. Franch nam úr­smíði hjá föður sín­um á Sauðár­króki, hóf svo nám við Iðnskól­ann í Reykja­vík, sem þá var til húsa við Reykja­vík­urtjörn, og var í þjálf­un hjá Guðna Jóns­syni úr­smið í Vest­ur­bæn­um.

„Þaðan fer hann til Dan­merk­ur í danska úr­smíðaskól­ann og starfaði síðan hjá Carl Jon­sén, kon­ung­leg­um hirðúr­smið í Kaup­manna­höfn. Eft­ir góð störf þar átti pabbi þess kost að fá þenn­an sama titil; kon­ung­leg­ur hirðúr­smiður, en hafnaði nafn­bót­inni því hon­um þótti hún of mikið pjatt,“ seg­ir Frank sög­una og bæt­ir við að hann hafi lengi at­ast í föður sín­um yfir að hafa ekki þegið þessa fínu fjöður í hatt­inn.

„Þaðan ætlaði hann til Sviss til starfa en þá skall seinni heims­styrj­öld­in á og batt enda á þann draum, en Franch tókst að kom­ast aft­ur til Íslands í Pet­samo-sigl­ing­unni- frægri ferð þar sem fjölda Íslend­inga var smalað sam­an í Norður-Nor­egi og siglt þaðan til Íslands, frá stríðsbrölt­inu í álf­unni.“

Eft­ir að hafa snúið aft­ur til Íslands starfaði Franch við hlið föður síns fyr­ir norðan, opnaði svo aðra versl­un í Reykja­vík og tók við rekstri fyr­ir­tæk­is­ins. Í Reykja­vík kynnt­ist hann til­von­andi eig­in­konu sinni, Guðnýju Jóns­dótt­ur. Michel­sen úr­smiðir lokuðu síðan á Sauðár­króki, og sam­einuðust feðgarn­ir Franch og J. Frank á úr­smíðaverk­stæðinu í Reykja­vík. Var fyr­ir­tækið í skamma stund á Vest­ur­götu, þvínæst til húsa á Lauga­vegi 39 í 50 ár, og síðan á Lauga­vegi 15 í 26 ár. Úraversl­un í Kringl­unni bætt­ist við árið 2015 og verður opin áfram, en sam­hliða flutn­ing­un­um á Hafn­ar­torg verður versl­un­inni á Lauga­vegi lokað.

Rol­ex með sitt eigið svæði

Frank og fjöl­skylda leggja mikið und­ir með flutn­ing­un­um enda hús­næðið á Hafn­ar­torgi stærra og dýr­ara, og mikið lagt í hönn­un og frá­gang. Nýju búðinni fylgja nýj­ar áhersl­ur, og má kalla hana með réttu „flagg­skips­búð“ margra fín­ustu úra­merkja heims.

„Tísku­merk­in, eins og Armani, Boss, og Michael Kors flytja upp í Kringlu þar sem Michel­sen úr­smiðir er til húsa og sér­hæf­ist sú versl­un enn frek­ar sem ekta úra­búð. Hjá Michel­sen 1909 í miðborg­inni verða aft­ur á móti sviss­nesk úr í hæsta gæðaflokki, s.s. Tag Heu­er, Long­ines, Tudor og vita­skuld Rol­ex sem fær sitt eigið 20 fer­metra rými sem er sér­hannað og fram­leitt á þeirra veg­um,“ út­skýr­ir Frank og læt­ur fljóta með að nýtt og spenn­andi úra­merki verði kynnt til sög­unn­ar í nýju versl­un­inni.

Frank neit­ar því ekki að svona stór­um breyt­ing­um fylgi viss streita og óvissa, en von­ir standa til að nýja versl­un­in auki enn frek­ar sölu til ferðamanna. Hingað til hafi sala lúx­us-úr­anna aðallega verið til ís­lenskra viðskipta­vina, en með vel heppnaða og veg­lega búð á besta stað megi reikna með að hlut­ur út­lend­inga auk­ist.

„Það gef­ur okk­ur til­efni til bjart­sýni að mæl­ing­ar sýna að fjár­sterk­um túrist­um fjölg­ar jafnt og þétt, og hinn dæmi­gerði út­lend­ing­ur sem sæk­ir Ísland heim er að eyða miklu meira en hann gerði fyr­ir t.d. tveim­ur árum.“

Um­gjörðin ætti að hjálpa og versl­un­in falla vel að glæsi­legu um­hverfi Hafn­ar­torgs en full­trúi Rol­ex, sem sótti Frank heim á dög­un­um til að virða nýju búðina fyr­ir sér, var him­in­lif­andi: „Okk­ur langaði að blanda sam­an hráu og fínu; reyna að ná fram þessu ís­lenska, og skapa um­gjörð sem er óneit­an­lega Rol­ex-búð, en um­fram allt Michel­sen-versl­un.“

Ný kyn­slóð viðskipta­vina

Íslend­ing­ar hafa yndi af vönduðum úrum og er ekki að heyra á Frank að vin­sæld­ir sviss­nesku gæðaúr­anna fari dalandi – og það þrátt fyr­ir að mörg­um hætti til að líta frek­ar á sím­ann frek­ar en úlnliðinn til að vita hvað klukk­an er.

„Unga fólkið, sem sum­ir héldu að myndu hætta að kaupa úr með komu snjallsím­anna, er þvert á móti góðir viðskipta­vin­ir og lít­ur m.a. á snot­urt úr, s.s. frá Tudor eða Long­ines, sem ómiss­andi hluta af sín­um heild­ar­stíl; auka­hlut sem kór­ón­ar út­litið,“ út­skýr­ir hann. Frank gengst líka við því að sum­ir líti á glæsi­legt úr sem stöðutákn, og ákveðna leið til að fagna því að hafa náð ár­angri í líf­inu. „En það er alls kon­ar fólk sem kaup­ir sér vönduðustu úrin, og marg­ir fyrst og fremst að hugsa um gæðin og end­ing­una, og sjá t.d. Rol­ex sem­skyn­sam­lega fjár­fest­ingu sem má láta ganga í erfðir mann fram af manni, kyn­slóð eft­ir kyn­slóð

Spurður hvaða úr þyki besta fjár­fest­ing­in seg­ir Frank ágæt­an markað fyr­ir all­ar teg­und­ir hágæða arm­bandsúra, en Rol­ex sé þó í sér­flokki enda eft­ir­spurn langt um­fram fram­boð og geta þeir sem vilja eign­ast vin­sæl­ustu úrin vænst þess að þurfa að vera á biðlista í nokk­urn tíma.

„Á sum­um mörkuðum eru Rol­ex-versl­an­irn­ar ein­fald­lega hætt­ar að skrá fólk á biðlista í bili, og dæmi um að biðin taki fimm ár ef fólk kemst yfir höfuð að. Hjálp­ar það til að stytta biðina fyr­ir mína viðskit­pa­vini að ég set ein­göngu Íslend­inga á biðlista.“

En hvað ef niður­sveifla er hand­an við hornið? Nú ber­ast þær frétt­ir utan úr heimi að markaðsgrein­end­ur nagi negl­urn­ar og póli­tík­us­ar fálmi eft­ir víta­mínspraut­um til að dæla í alþjóðahag­kerfið svo bægja megi kreppu-draugn­um í burtu um sinn. Áhrif­anna myndi þá ef­laust gæta á Íslandi og sal­an á dýr­um úrum drag­ast sam­an, eða hvað?

„Þvert á móti þá hef­ur sala auk­ist þegar þreng­ir að í hag­kerf­inu, og þannig jókst sal­an á Rol­ex úrum þegar bank­arn­ir hrundu á sín­um tíma,“ seg­ir Frank og út­skýr­ir þetta fyr­ir­bæri bet­ur: „Þegar markaðir eru í upp­námi og eign­ir rýrna í verði þá leit­ar fólk í eitt­hvað sem auðvelt er að fjár­festa í og ekki flókið að selja aft­ur seinna meir. Fyr­ir marga eru Rol­ex úr það sem verður fyr­ir val­inu.“

Þarf að hugsa vel um úrið

Úrin end­ast hæg­lega í marga ára­tugi, fái þau gott og reglu­legt viðhald. Úr eru lít­il vél sem þarf að smyrja og viðhalda.

„Svipað eins og huga þarf að ol­í­unni á bíln­um eft­ir 15.000 km akst­ur og yf­ir­fara vél­ina endr­um og sinn­um þarf að sinna viðhaldi á hágæða úrum og ætti að láta úr­smið líta á þau á u.þ.b. fimm ára fresti. Er þá úrið yf­ir­farið ræki­lega að inn­an sem utan, höggv­arn­ir og vatns­varn­ir skoðaðar og úr­verkið hreinsað, olíu­borið og smurt,“ seg­ir Frank.

Þeir sem vilja fjár­festa í dýr­um úrum, þurfa síðan að fara var­lega, því aldrei hef­ur verið erfiðara að greina á milli falsaðra og ófalsaðra úra. Eru fals­ar­arn­ir orðnir svo flink­ir að það þarf þjálfað auga til að greina á milli ekta og óekta úra, og jafn­vel ekki nóg að opna úrið því inn­volsið er líka látið líkj­ast gang­verk­inu í ekta hágæðaúri.

„Til að gera illt verra eru fals­ar­ar farn­ir að apa eft­ir út­liti eldri mód­ela og láta þau virðast vera notuð og ör­lítið slit­in, til að villa um fyr­ir kaup­end­um.“

Hvað á svo að gera til að láta ekki glepj­ast?

„Ef fólk get­ur ekki keypt úrið hjá versl­un sem hef­ur sér­stak­an sölu­samn­ing við fram­leiðand­ann, eða þá hjá versl­un sem hef­ur á sér langt og gott orðspor fyr­ir end­ur­sölu hágæðaúra, þá er eina leiðin til að vera viss að fara með úrið til sér­fræðings í skoðun,“ seg­ir Frank en hann fær margoft til sín úr sem kaup­end­urna grun­ar að séu óekta. „Þannig heim­sókn­ir eru al­geng­ar, fer fjölg­andi og allt of marg­ir sem sitja upppi með falsað úr sem þeir borguðu mikið fyr­ir.“

Kannski tek­ur fimmta kyn­slóðin við

Von­andi mun allt ganga að ósk­um á nýja staðnum, og verður þá gam­an að sjá hvernig hefðin fyr­ir sölu og smíði úra mun lifa áfram með næstu kyn­slóð Michel­sen-ætt­ar­inn­ar. Frank á þrjá syni með konu sinni Ingu S. Magnús­dótt­ur: Elst­ur er Frank M. Michel­sen, svo Ró­bert F. Michel­sen og Magnús D. Michel­sen.. Ró­bert lærði úr­smíði í Sviss, og er að sögn föður síns með ein­staka hæfi­leika í sínu fagi. Frank M. lærði viðskipta­fræði og hef­ur haldið utan um dag­leg­an rekst­ur úra­búðanna, og Magnús sinn­ir ýms­um verk­efn­um hjá fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­inu og er bræðrum sín­um inn­an hand­ar, en hans aðalstarf er hjá Borg­un.

Frank seg­ist ekki hafa haldið því að son­um sín­um að taka við kefl­inu frá hon­um, held­ur hafi það gerst á nátt­úru­leg­an hátt.

„Þeir ólust upp á úr­smíðaverk­stæðinu og strák­un­um í blóð borið að stunda svona rekst­ur af þjón­ustu­lund og áhuga,“ seg­ir hann og bæt­ir við að hann viti um æði marg­ar dap­ur­leg­ar sög­ur af for­eldr­um sem ein­mitt þrýstu hart á börn­in sín að fara sömu leið í líf­inu og halda þannig við hefðum sem eiga sér sögu sem spanna marg­ar kyn­slóðir.

„Ef áhug­ann vant­ar þá fer það aldrei vel, og eng­inn verður ánægður þegar upp er staðið.“

Elsti son­ar­son­ur Franks er ný­fermd­ur og því ekki hægt að segja um það með neinni vissu hvort að eft­ir tutt­ugu ár eða svo verði fjallað um það á þess­um síðum að fimmta kyn­slóðin sé kom­in til starfa við úr­smíðaborðið: „Eldri son­ur Ró­berts er samt áber­andi seig­ur þegar hann raðar sam­an Legó-kubb­um, og virðist hafa sömu vand­virkn­ina og vinnu­skipu­lagið og pabbi sinn, svo það er aldrei að vita.“

Versl­un­in sér­út­bú­in og afar ör­ugg

Ekki er nóg með að mikið hafi verið lagt í að inn­rétta nýju versl­un­ina fal­lega held­ur eru þjófa- og inn­brotsvarn­ir betri en hjá nokk­urri ann­arri ís­lenskri búð, og úrin ef­laust ör­ugg­ari en ef þau væru geymd í dæmi­gerðri banka­hvelf­ingu: „Sem dæmi er stál í veggj­um svo að eng­inn kemst þar í gegn, og hnausþykkt ör­ygg­is­gler í rúðunum. Þá erum við með tvö­fald­ar dyr með aðgangs­stýr­ingu,“ seg­ir Frank og læt­ur það fljóta með að til viðbót­ar við þetta séu alls kyns leynd­ar varn­ir í búðinni sem eigi að tryggja þau miklu verðmæti sem þar er verslað með.En munu þá úrin fá að vera úti í glugga all­an sól­ar­hring­inn, fyr­ir gang­andi veg­far­end­ur að mæna á og láta sig dreyma um? „Nei, við þurf­um eft­ir sem áður að geyma úrin í ör­ygg­is­skáp yfir nótt­ina, því ef við hefðum þau sýni­leg væru all­ar lík­ur á að það myndi freista ein­hverra að gera til­gangs­lausa at­lögu að gler­inu, og myndi þýða að við fengj­um minna næði til að hvílast ótrufluð fyr­ir næsta vinnu­dag.“

Erfitt að stunda versl­un við Lauga­veg

Frank er einn þeirra versl­un­ar­eig­enda á Lauga­vegi sem hafa haft áhyggj­ur af til­raun­um borg­ar­yf­ir­valda með skipu­lag göt­unn­ar og aðgengi. Hann seg­ir það ekk­ert leynd­ar­mál að flutn­ing­arn­ir niður á Hafn­ar­torg komi m.a. til vegna hversu erfiðara er orðið að stunda versl­un­ar­rekst­ur á Lauga­vegi. Hef­ur þar mest áhrif að þeim hluta göt­unn­ar þar sem gamla versl­un­in var til húsa er lokað fyr­ir bílaum­ferð stór­an hluta árs­ins. „Það er sjálfsagt að hleypa bíl­um ekki inn á Lauga­veg þegar fjöldi fólks fer þar um fót­gang­andi og það er jafn sjálfsagt að opna fyr­ir bílaum­ferð þegar veðrið er vont og gang­andi veg­far­end­ur halda sig fjarri,“ segi Frank.Einnig hef­ur áhrif hvernig staðið er að fram­kvæmd­um á miðborg­ar­svæðinu, þar sem oft vill henda að fram­kvæmd­irn­ar eru gerðar án sam­ráðs við fyr­ir­tæki og íbúa, vara lengi, valda mik­illi rösk­un og tor­velda aðgengi fólks að þess­um borg­ar­hluta. „Í sum­ar hafa staðið yfir um­fangs­mikl­ar fram­kvæmd­ir á nokkr­um stöðum um­hverf­is Lauga­veg og hafa þær valdið því að fólk sem á er­indi í miðbæ­inn lend­ir þar í vill­um og rat­ar hvorki inn né út.“

Grein frá Morgunblaðinu eftir Ásgeir Ingvars­son

- -

Upp