Fréttir

Stúfur snýr aftur á svið í LA

Mynd: Stúfur (Leikfélag Akureyrar)

Um síðustu jól hélt Stúfur jólasýningu sína við frábærar viðtökur og snýr nú aftur í Samkomuhúsið með nýja leiksýningu. Hann hefur notað tímann vel eftir síðustu jólavertíð og meðal annars æft sig að spila á hljóðfæri, stundað þrotlausa líkamsrækt og smurt raddböndin. „Ég er ljúfur, hrjúfur, spriklandi og sprellfjörugur” segir Stúfur.

Hann ætlar að segja sannar sögur af sjálfum sér og samferða„fólki”. Gefa alls kyns jólaráð sem ættu að gleðja jafnt börn, unglinga, foreldra, afa og ömmur – og jafnvel hina geðvondu og sípirruðu móður listamannsins, sjálfaGrýlu.

Hér sýnir og sannar jólasveinninn Stúfur enn og aftur að hann er enginn venjulegur jólasveinn. Hann er himinlifandi yfir að hafa verið boðið að vera aftur í Samkomuhúsinu. Stúfur er jólaleg jólasýning fyrir rollinga, gamlingja og allt þar á milli, samt mest fyrir snillinga.

Norðurorka er bakhjarl sýningarinnar og gerir okkur kleift að sviðsetja þessa bráðhressandi sýningu. Stúfur er einn af mörgum viðburðum í metnaðarfullri dagskrá MAk fyrir ungt fólk og börn.
Stúfur snýr aftur er samstarfsverkefni Stúfs og Leikfélagsins og er 324 verkefni Leikfélags Akureyrar.

Aldurshópur 6+

Höfundur og leikari: Stúfur

Leikstjórn, meðhöfundar og sérstakir uppalendur: Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson

Hér má nálgast miða.

Upplýsingar af facebooksíðu Stúfs.

 

- -

Upp