Fréttir

Snoop Dogg leikur sjálfan sig í söngleik

Rapparanum Snoop Dogg er margt til lista lagt. Hann hefur þó aldrei stigið á leiksvið áður, en á því verður breyting í október næstkomandi. Þá verður nýr söngleikur um ævi rapparans frumsýndur í Bandaríkjunum.

Sýningin mun bera nafnið Redemption of Dogg en leikskáldið Je’Caryous Johnson mun skrifa og leikstýra verkinu. Sagan fjallar um hina flóknu sögupersónu Snoop Dogg, sem er í senn fjölskyldufaðir og maður guðs, en líka glæparappari með vafasama fortíð. Sýningin mun innihalda helstu smelli rapparans en um það leyti sem sýningin er frumsýnd verða einmitt liðin 25 ár frá útgáfu fyrstu plötu Snoop Dogg, Doggystyle.

Rapparanum til halds og trausts á sviðinu verður söngkonan Tamar Braxton, sem er kannski þekktust fyrir það að vera systir Toni Braxton, söngkonunnar sem gaf út hið goðsagnakennda lag Un-break My Heart á tíunda áratugnum.

- -

Upp