Fréttir

Sigurganga Hildar heldur áfram

Mynd: AP/RICHARD SHOTWELL

Hildur Guðnadóttir hreppti tvenn stór verðlaun á verðlaunahátíð Samtaka tónskálda og textahöfunda í Los Angeles, sem fram fóru á þriðjudag. Um helgina hlaut Hildur Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker, auk þess sem hún var tilnefnd til Bafta-verðlauna fyrir sömu tónlist í vikunni. Jafnframt voru Hildi veitt Íslensku bjartsýnisverðlaunin á Kjarvalsstöðum í síðustu viku.

Auk verðlauna fyrir bestu frumsömdu tónlistina í fyrrnefndum Jóker hlaut Hildur verðlaun fyrir frumsamda tónlist sína í þáttunum Chernobyl á verðlaunahátíð Samtaka tónskálda og textahöfunda, Society of Composers & Lyricists. Hildur hafði áður hlotið Emmy-verðlaun fyrir tónlist sína í þáttaröðinni, sem er úr smiðju HBO og var sýnd á Stöð 2 á sínum tíma.

Í þakkarræðu sinni sagði Hildur að það væri henni mikill heiður að fá inngöngu í þennan félagsskap, og vísaði til samtakanna sem veittu verðlaunin. Þetta er í fyrsta sinn sem þau eru veitt og má nálgast lista yfir aðra verðlaunahafa með því að smella hér.

Sjá einnig: Balti um velgengni Hildar: Hún verður fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarinn

Í ljósi velgengni Hildar á síðustu misserum er talið líklegt að hún verði tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína. Til að mynda telur stórtímaritið Vanity Fair að Hildur muni hreppa tilnefningu en það kemur í ljós á mánudaginn næstkomandi. Hún er þegar komin í hóp þeirra 15 sem eiga möguleika á tilnefningu fyrir bestu frumsömdu kvikmyndatónlistina, en fækkað verður í hópnum áður en formlegar Óskarstilnefningar verða kynntar.

Vanity Fair telur líklegast að Thomas Newman muni hreppa Óskarinn fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Marriage Story, „en sigur Hildar á Golden Globes fær okkur til að halda að hún gæti orðið þriðja konan í sögunni til að hreppa Óskarsverðlaun fyrir frumsamda tónlist,“ skrifa kvikmyndarýnir tímaritsins.

Verði Hildur tilnefnd til Óskarsverðlauna fetar hún í fótspors samstarfsmanns síns fyrrverandi Jóhanns Jóhannssonar sem tvisvar var tilnefndur til Óskarsverðlauna. Fyrst árið 2014 fyrir tónlistina í The Theory of Everything og aftur ári síðar fyrir tónlistina í kvikmyndinni Sicario. Jóhann lést árið 2018.

Grein frá Vísi.

- -

Upp