Fréttir

Ríkharður III sigurvegari kvöldsins

Brynhildur Guðjónsdóttir vann verðlaun fyrir leikstjórn ársins en hún leikstýrði Ríkharði III. Mynd: Fréttablaðið/Eyþór

Sýningin Ríkharður III var sigurvegari kvöldsins þegar Grímuverðlaunin fóru fram í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Sýningin var tilnefnd í átta flokkum og stóð uppi sem sigurvegari í sex þeirra.

Verkið fór heim með verðlaun í flokknum sýning ársins og þá vann Brynhildur Guðjónsdóttir verðlaun fyrir leikstjóra ársins en hún leikstýrði sýningunni. Hjörtur Jóhann Jónsson, sem fer með hlutverk Ríkharðs, vann verðlaunin fyrir leikara ársins.

Þá vann sýningin verðlaun fyrir leikmynd ársins en það var Ilmur Stefánsdóttir sem stóð að henni. Filippía I. Elísdóttir hlaut verðlaun fyrir búningahönnun sýningarinnar og Björn Bergsteinn Guðmundsson fyrir lýsingu.

Sýningin Matthildur fékk tvenn verðlaun en það var hún Vala Kristín Eiríksdóttir sem fékk verðlaun sem leikkona ársins í aukahlutverki og Lee Proud, danshöfundur sýningarinnar, fékk verðlaun fyrir dans- og sviðshreyfinar ársins.

Ronja Ræningjadóttir var valin barnasýning ársins og Club Romantica fékk verðlaun fyrir leikrit ársins. Stefán Hallur Stefánsson fékk verðlaunin leikari ársins fyrir hlutverk sitt í sýningunni Samþykki og Sólveig Guðmundsdóttir var valin leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í sýningunni Rejúníon.

Borgarleikhúsið var því sigursælast leikhúsanna með níu verðlaun í kvöld en Þjóðleikhúsið fór heim með þrjú verðlaun fyrir sýningarnar Einræðisherrann, Ronja ræningjadóttir og Samþykki.

Grein frá visir.is

- -

Upp