Fréttir

Reykjavík Kabarett leitar að þátttakendum!

Mynd: Lilja Draumland

Fjöllistahópurinn Reykjavík Kabarett verður með vikulegar sýningar í Þjóðleikhúskjallaranum í haust. Hópnum veitir ekki af því að stækka við sig og stendur hann því fyrir opnum prufum í lok mánaðarins. Dómnefndin í prufunum er skipuð miklum reynsluboltum úr heimi sviðslistanna, þeim Eddu Björgvinsdóttur, Margréti Erlu Maack og Lárusi Blöndal, betur þekktum sem Lalla töframanni. Tveir síðastnefndu dómararnir eru einskonar foreldrar Reykjavík Kabarett og hafa þau verið iðin við að bera á sér rassinn á sviði Þjóðleikhúskjallarans og víðar síðustu misseri.

Lárus Blöndal og Margrét Erla Maack. Mynd: Lilja Draumland

Prufurnar verða haldnar fyrir framan fullan sal af áhorfendum og vonast dómenfndin til þess að viðbrögð áhorfenda verði til þess að hjálpa þeim að taka ákvörðun um hverja skuli velja sem næstu kabarettstjörnur Íslands. Að sögn aðstandenda er leitað að sem fjölbreyttustum skemmtiatriðum – svo lengi sem þau séu skemmtileg og fullorðins.

Allir þeir sem hafa gaman af því að stíga á svið og skemmta fólki eru hvattir til þátttöku í prufunum sem verða haldnar í Þjóðleikhúskjallaranum 30. ágúst næstkomandi. Hægt er að skrá sig í prufurnar hér en vert er að taka fram að einungis þeir fyrstu 10 sem skrá sig til leiks fá að taka þátt.

- -

Upp