Fréttir

Reimt frumsýnd

Föstudaginn 6. mars frumsýndi Leikfélagið Verðandi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ söngleikinn Reimt.

Tveir landsfrægir skemmtikraftar láta plata sig til að fjárfesta í gömlu sveitahóteli, sem má muna fífil sinn fegri. Á sama tíma finnst eldgömul beinagrind í grennd við hótelið, en hauskúpuna vantar. Í kjölfarið gerast rosalegir atburðir og það er deginum ljósara að á hótelinu í Botni er … jú, reimt. En þegar allt virðist vonlaust kemur hins vegar í ljós að reimleikar geta haft vissa kosti í för með sér, sérstaklega á tímum harðnandi samkeppni í ferðaþjónustu.

Þetta er saga um ástir og örlög, græðgi og örlæti, fjandskap og vináttu, spikk og span, listir og snobb, tímann og vatnið. En líka um gauksklukku.

Þeir Karl Ágúst Úlfsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hafa unnið að gerð þessa söngleikjar í meira en áratug, en hann er saminn í Þrastaskógi, Reykjavík, Colorado, Flórens, sveitum Toscana, á Akureyri, í Hrísey, Bárðardal, á Gran Canaria, í Garðabæ, Kópavogi, Róm og á Sikiley. Það hefur því farið í hann blóð, sviti og tár. Og dass af rauðvíni. Nú leikstýrir Karl Ágúst verkinu í FG, en Þorvaldur annast tónlistarstjórn. Og svo er það Brynhildur Karlsdóttir sem er danshöfundur sýningarinnar.

Verkið sem var 30 ár í vinnslu.

Fyrsta uppkast söngleiksins Reimt var skrifað árið 1990, var hann loksins frumsýndur þann 6. mars síðastliðinn í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Karl Ágúst Úlfsson og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina, meðal annars að söngleikjunum Gosa og Gulleyjunni sem settir voru upp í Borgarleikhúsinu, en einnig nýlega að verkinu Gallsteinar afa Gissa sem sett var upp hjá Leikfélagi Akureyrar á seinasta ári. Karl Ágúst skrifað fyrstu drög að söngleiknum árið 1990, en það verkefni þurfti að víkja fyrir öðrum hugmyndum. Þar til Karl og Þorvaldur kynntust við gerð á söngleiknum Gosa. Saman unnu þeir að gríðarstórri draugaóperu sem átti að setja upp á sviði Þjóðleikhússins…þar til hrunið skall á árið 2008 og ljóst var að verk af slíkri stærðargráðu myndi hvergi vera sett upp neins staðar á Íslandi. Það var ekki fyrr en í sumar þegar leikfélagið Verðandi í FG fjárfesti í þvi að verkið yrði klárað að fullu.

Karl Ágúst Úlfsson höfundur og leikstjóri, Brynhildur Karlsdóttir danshöfundur, og Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson höfundur og tónlistarhöfundur.

Nú verður verkið sýnt sem söngleikur í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í Urðarbrunni, sal skólans. Karl Ágúst Úlfsson leikstýrir verkinu en Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson annast tónlistarstjórn. Og tekur Brynhildur Karlsdóttir, dóttir leikstjórans, að sér hlutverk danshöfundar.

Við stjórnin vildum gera eitthvað stærra en nokkurn tíman fyrr. Við vildum gera söngleik sem yrði minnistæður og hefði áhrif. Svo við ákváðum að hringja í þann mann sem hefur án efa litað æsku okkar með söngleikjatónsmíðum meira en nokkur annar, Þorvald Bjarna Þorvaldsson. Og viti menn, hann var til í að gerast tónlistarhöfundur sýningarinnar. Við Þorvaldur hittumst nokkrum sinnum yfir sumarið til að ræða áform leikfélagsins í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Dróg hann upp verk úr rykfallni skúffu, sem hann og Karl Ágúst Úlfsson höfðu unnið að, fyrir mörgum árum síðan. Það var söngleikurinn sem síðar átti eftir að vera frumsýndur í Urðarbrunni í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.

Egill Andrason er formaður Leikfélagsins Verðandi og vann með stjórn sinni að undirbúningi sýningarinnar í 10 mánuði. Með honum á myndinni eru Þorvaldur, Brynhildur og Karl.

„Það er mikil sæla hjá mér varðandi frumsýninguna. Mikil vinna fór í þetta og mér fannst við uppskera vel. Ég er allavega rosa ánægður með alla sem hafa komið að þessu, það er alveg ótrúlegt hvað mikið af duglegu fólki kom að þessu. En ég finn samt ekki fyrir ró, þar sem ég er alltaf með næsta verkefni i huga.“ Segir Egill og bætir við að verkefni líðandi stundar sé að markaðssetja sýninguna og að fá fólk í sætin.

Hægt er að tryggja sér miða á Tix.is!

tix.is/is/event/9765/reimt

- -

Upp