Sjálfstæðu leikhúsin

Rauða skáldahúsið í Iðnó

Ljósmynd: idno.is

Rauða skáldahúsið snýr aftur til leiks í Iðnó þann 29. júlí. 

Árið er 1921. Áfengi er bannað með lögum. En í Rauða skáldahúsinu má finna athvarf frá drykkjubanninu, daður og doðranta. Skáldskapur liggur í loftinu og tónar fara á flug. Ásamt lifandi tónlist sér Reykjavík Kabarett um að skemmta fólki með burlesque atriðum, tarot spá er í boði og teiknaðar portrett myndir frá listmálara hússins. Að auki stíga ljóðskáld á stokk og selja ljóðalestur í einkarekkjum.

Miðaverð er 3.000 krónur. Nemendur fá 50% afslátt við hurð gegn framvísun skólaskírteinis.

Viðburðurinn fer fram bæði á íslensku og ensku, svo það er tilvalið að taka erlenda gesti með.

Einkalestrar eru í boði fyrir 700 kr per lestur.

—-

Rauða skáldahúsið í Reykjavík er einstakur viðburður byggður að fyrirmynd ‘The Poetry Brothel’ sem á uppruna sinn að rekja til New York en hefur nú dreifst um víða veröld. Við viljum brjóta veggina á milli ljóðs og leiklistar, leikara og áhorfenda.

Umgjörð kvöldsins er í leikhúsþema gleðihúss, þ.e.a.s. miðað við ‘fínt’ gleðihús í anda Parísar um 1920, þar sem alls kyns listamenn fara á stjá. ‘Madame’ hússins kynnir til leiks ljóðskáld sem koma fram í karakter. Þau lesa upp ljóð á sviði, eða óvænt úti í sal, ásamt því að selja einkalestra bakvið luktar dyr. Lifandi tónlist hljómar, og skemmtiatriði verða sett á svíð. Skáldum og gestum er boðið að klæða sig upp á hvern þann hátt sem þau vilja, en engin skylda er gerð um klæðaburð, þó fólk eigi það til að fara í glitrandi síðkjóla, korselett eða jakkaföt erlendis.

- -

Upp