Fréttir

Opinn samlestur á Rocky Horror

Fimmtudaginn 18. janúar verður opinn samlestur á söngleiknum Rocky Horror á Stóra sviði Borgarleikhússins og munu leikarar lesa verkið ásamt því að syngja lögin við píanóundirleik. Samlesturinn hefst kl. 13 og eru gestir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Sýningin verður frumsýnd föstudaginn 16. mars.

Eins og áður hefur komið fram þá fer Páll Óskar Hjálmtýsson með hlutverk Frank N Furter, en aðrir leikarar eru Arnar Dan Kristjánsson, Björn Stefánsson, Brynhildur Guðjónsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Valur Freyr Einarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Þá fer söngvarinn Valdimar Guðmundsson með hlutverk Eddie í sýningunni.

Leikstjóri verksins er Marta Nordal, danshöfundur er Lee Proud, tónlistarstjóri er Jón Ólafsson og um þýðinguna sá Bragi Valdimar Skúlason.

Tveimur vikum síðar, fimmtudaginn 1. febrúar, verður sérstakur forsöludagur þar sem fólk gefst tækifæri til að tryggja sér miða áður en almenn sala hefst.

- -

Upp