Fréttir

Minningargrein um Sigurð Pálsson

Mynd: Sigurður Pálsson (Forlagið)

Sigurður Pálsson var jarðsunginn í dag. Minningargrein Kristjáns Þórðar Hrafnssonar, rithöfundar og leikskálds, um Sigurð, sem birtist í Morgunblaðinu, fylgir hér á eftir:

“Hann orti svo fallega um ljósið á kertinu. Svo máttugt og máttvana í senn. Sjálfur var hann á sinn hátt máttugur, kvikur og skarpur eins og logi á kerti en um leið fíngerður og næmur. Það streymdi frá honum orka. Það stafaði frá honum hlýju. Og það lagði frá honum sérstaka birtu. Skáldlega birtu sem gerði allt einhvern veginn innihaldsríkara. Hvort sem hann var á göngu í miðbæ Reykjavíkur, sat yfir kaffibolla á kaffihúsi, las upp úr verkum sínum, spjallaði um skáldskapinn, heima og geima eða kenndi háskólanemum, lýsti hann upp tilveruna með leifturskýrri hugsun sinni, kímni og hnyttni og setti skemmtilegan svip á umhverfið með sérstöku fasi sínu og fagurkeralegum klæðaburði.

Sigurður Pálsson var gagntekinn af ást á lífinu. Ástarsamband hans við lífið var fullt af ólgandi tilfinningum, gleði og þakklæti en ekki átakalaust frekar en nokkurt ástarsamband. Það fól í sér glímu við stórar spurningar, lotningu frammi fyrir ráðgátum alheimsins, hrifningu af fegurðinni í öllum sínum margbreytileika, en líka uppreisn gegn stöðnun, doða og þröngsýni og andúð á einsleitni, ljótleika og ranglæti. Hann var óhræddur við að taka sér stöðu gegn beiskjunni, dapurleikanum og neikvæðninni sem á lævíslegan hátt ógna sífellt okkur manneskjunum. Verk hans bera vott um djúpa hugsun, mannvit og lífsskilning. Hann átti innra með sér einstaka uppsprettu lífsorku, andríkis og sköpunargáfu sem hann gatt sótt í bæði sem listamaður og manneskja. Og svo átti hann því mikla láni að fagna að eiga hana Kristínu að lífsförunaut, afburða listakonu sem var eiginkona, sálufélagi, samverkamaður og vinur.

Það besta í ljóðlist margra skálda snýst um hið óhöndlanlega eða hið horfna og glataða. Það vekur því athygli hve mörg ljóð Sigurðar Pálssonar fjalla á áhrifaríkan hátt um það sem hægt er að upplifa hér og nú, töfra hinnar líðandi stundar, unaðssemdir lífsins. Skáldskapur hans er beinlínis fullur af fjörefnum fyrir vitundar- og tilfinningalífið. Hann ber vott um lífsafstöðu sem einkennist af fögnuði, fegurðarást og trú á möguleika mannsins.

Elja og þrautseigja eru eiginleikar sem í ríkum mæli prýddu hinn grannvaxna heimsmann. Fárveikur og máttfarinn á líknardeildinni talaði hann af ástríðu um skáldskapinn, höfunda sem hann hélt upp á og áhrifavalda, sönglaði meira að segja brot úr texta eftir Bob Dylan þegar söngvaskáldið bar á góma í samtalinu.

Í ljóðinu Vax ákallar skáldið kertið sem dreypir vaxi á dúkinn á borðinu:
Og kenndu mér að syngja
fyrir vaxdúkinn
vaxdúkinn sem blífur
Og auðvitað er þessi vaxdúkur heimurinn sem svo oft er kaldur, viðbragðalaus og fráhrindandi. Skáldskapur Sigurðar Pálssonar er dýrðarsöngur um lífið í rangsnúnum heimi. Skáldskapur hans mun lifa.”

Kristján Þórður Hrafnsson

- -

Upp