Fréttir

Matthías og Eva leikskáld Borgarleikhússins

Mynd: Borgarleikhúsið

Matthías Tryggvi Haraldsson og Eva Rún Snorradóttir hafa verið valin Leikskáld Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur 2020–2021, en tilkynnt var um valið við athöfn í Borgarleikhúsinu í dag. Þau voru valin úr hópi 42 umsækjenda og taka við af Þórdísi Helgadóttur sem hefur verið leikskáld Borgarleikhússins síðastliðið ár.

Stefnt er að því að afrakstur vinnu leikskálda sjáist í starfsemi Borgarleikhúss. Annað megin markmið sjóðsins er að stuðla að auknum áhuga ungs fólks á leikritunarforminu og kynna verðandi leikskáldum lögmál leiksviðsins. Nú hafa átta leikskáld starfað við leikhúsið undir verndarvæng Leikritunarsjóðs Auður Jónsdóttir, Jón Gnarr, Kristín Marja Baldursdóttir, Tyrfingur Tyrfingsson, Salka Guðmundsdóttir, Björn Leó Brynjarsson og nú síðast Þórdís Helgadóttir sem er að ljúka störfum í vor.

Skáldin fá aðstöðu í leikhúsinu, vinna þar á samningstímanum og eru hluti af starfsliði Borgarleikhússins og sæki reglubundið fundi leikhússtjóra og leiklistarráðunauta. Kappkostað er að veita leikskáldunum aðgang að allri starfsemi Borgarleikhússins og njóti aðstoðar, leiðsagnar og stuðnings leikhússtjóra, leiklistarráðunauta og annars starfsfólks leikhússins. Auk þess eiga þau kost á samræðum við leikara, leikstjóra og leikmyndahöfunda og að sitja æfingar á verkefnum Borgarleikhússins.

Eva Rún Snorradóttir er sjálfstætt starfandi sviðslistakona og rithöfundur. Hún útskrifaðist með B.A gráðu frá Listaháskóla Íslands, Sviðshöfundabraut vorið 2008. Eva Rún er ein af stofnendum og listrænum stjórnendum Framandverkaflokksins Kviss búmm bang og Sviðslistahópsins 16 elskenda. Eva Rún hefur gefið út þrjár ljóðabækur: Heimsendir fylgir þér alla ævi, 2013, Tappi á himninum, 2016 og Fræ sem frjóvga myrkrið, 2018. Fræ sem frjóvga myrkrið hlaut Maístjörnuna, verðlaun fyrir bestu ljóðabókina árið 2018. Eva Rún starfar reglulega sem stundarkennari og leiðbeinandi við Sviðslistadeild LHÍ. Eva Rún er ein af listrænum stjórnendum alþjóðlegu leiklistarhátíðarinnar LÓKAL.

Matthías Tryggvi Haraldsson útskrifaðist með BA sem sviðshöfundur frá LHÍ 2018. Hann var sproti ársins í Grímuverðlaununum 2019 fyrir sýninguna Griðarstaður sem var einnig tilnefnt sem leikrit ársins. Hann skrifaði verkið Stóri Björn og kakkalakkarnir sem valið var í NÚNA 2019 í Borgarleikhúsinu og var einnig valinn núna á dögunum sem fulltrúi Íslands hjá leikfélaginu Cut the Cord sem stendur fyrir leiklistarhátíðinni New Nordics Festival. Matthías er meðlimur hljómsveitarinnar HATARI sem keppti fyrir hönd Íslands á Eurovision á seinasta ári.

Markmið Leikritunarsjóðs Leikfélags Reykjavíkur er að efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Formaður stjórnar Leikritunarsjóðsins er frú Vigdís Finnbogadóttir, heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur. Aðrir í stjórn eru Brynjólfur Bjarnason og Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri.

- -

Upp