Gagnrýni

María Kristjánsdóttir: Svartlyng

Eftirfarandi leikdómur er fenginn af menningarvef RÚV.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Eitt megineinkenni leikhússins, leiklistar, hefur frá örófi verið að hamast við að blekkja áhorfendur með tilbúnum veruleika. Í dag þegar forseti Bandaríkjanna voldugasta ríki heims lætur staðreyndir ekki velkjast fyrir sér en setur það sem hann ímyndar sér á svið sem sannleika. Í dag þegar ráðamenn okkar beita viðlíka blekkingum undir leikstjórn spunameistara bæði til þess að komast til valda og halda völdum. Já, í dag þegar öll veröldin er orðin leikhús þar sem erfitt er að greina á milli veruleika og blekkingar, hvernig verður henni þá lýst af leikskáldi á raunverulegu leiksviði?

Guðmundur Brynjólfsson velur að sækja í aðferðir leikhúss fáránleikans í verki sínu „Svartlyng“ sem segir frá nýliðnum atburði í stjórnmálasögu okkar sem hafði afleiðingar út í alla kima samfélagsins og enn sér ekki fyrir endann á. En hann sækir ekki í það leikhús fáránleikans sem fágað var mest á frönskum leiksviðum síðustu aldar heldur mikið fremur það enn gróteskara sem stundað hefur verið alla tíð á mörkuðum og hópsamkomum alls konar af alþýðu manna og fyrir alþýðu manna. Í hið hráa, grófa og yfirgengilega sem alþýðan hefur notað til að afhjúpa fyrirlitningu sína á yfirstéttinni.

Það er leikhópurinn Gral undir stjórn Bergs Þórs Ingólfsonar sem sýnir Svartlyng í Tjarnarbíói. Sýningin er á þremur plönum. Það fyrsta er meginatburðarás í glerhúsi ráðuneytis sem myndhöfundurinn Eva Vala Guðjónsdóttir táknar með tveimur glerturnum sem hvor um sig er ekki mikill að ummáli en þó nægilega stór til að tvær manneskjur geta troðið sér þar inn og gerir hann ýmsar skemmtarlegar lausnir mögulegar. Bakatil annað plan, trébekkur þar situr lítil stúlka í byrjun sem hverfur og kemur aftir í framvindunni og reynir stundum án árangurs að knýja að dyrum í glerhúsinu. Og á þriðja planinu erum við áhorfendur sem dregnir eru inn á fréttamannafundi ráðuneytis og situr þá fréttamaður á meðal vor. Leikmunir eru nær engir nema fjöldi klósettrúlla sem kastað er inn á svæði ráðuneytis í upphafi og nýtast þær ágætlega fyrir ráðuneytisliðið til ýmissa hluta og eru auðvitað nokkus konar fyrirsögn um hvaða augum við eigum að líta það sem gerist þar.

Við fáuum að kynnast fjórum starfsmönnum í ráðuneytinu. Ráðherranum sjálfum, hinum velættaða Svartlyng, ráðuneytisstjóranum Elsu Sjött og skrifstofustjóranum Valgeiri án ættarnafns. Sá fjorði er Þórhallur Sívertsson, öryrki og fíkill sem hefur verið ráðinn þangað sem gluggaþvottamaður til að fullvissa þjóðina um að ríkisstjórnin vilji stuðla að gagnsæi og um leið auðvitað til að sýna ást ríkisstjórnarinnar á „aumingjum“.

Óborganlegur er oft húmor Guðmundar og hvernig hann snýr upp á þekktu klisjurnar sem streyma af vörum persónanna þegar þær í darraðardansi yfirhilminga, þöggunar, lyga, blekkinga nota öll meðöl til að reyna að fela upplýsingar fyrir almenningi og fjölmiðlum takist þeim ekki að taka þá síðarnefndu á löpp eða múta þeim.

Og þó Bergur Þór ýki allan leikstíl til hins ítrasta stundum mætti janfvel tala um offors í leik þá er áhorfanda furðu fljótt ljóst að hér er verið að fjalla um þekkt mál. Þá verndarhendi sem haldið var yfir barnaníðingi í dómsmálaráðuneytinu í síðustu ríkisstjórn vegna föður forsætisráðherra. Því Sveinn Ólafur Gunnarsson hermir svo unun er að barnslega sjálfumgleði, hroka og flóttaleiðir Bjarna Benediktssonar en býr til um leið táknmynd allra slíkra stjórnmálamanna og Sólveig Guðmundsdóttir leikur sér að því að sýna okkur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Sigríði Andersen í einni og sömu kvenpersónu. Ógleymanlegt atriðið til dæmis þegar valdadrottningin snýst í einni svipan yfir í femínista og fórnarlamb. Og skemmilega á óvart kemur Benedikt Karl Gröndal sem leikur skrifstofustjórann hinn undirgefna einfalda liðsmann Flokksins sem fórnar öllu fyrir hann, jafnvel handleggjunum. Valgerður Rúnarsdóttir er í hlutverki fréttamanns, og á magnað atriði inni í glerturni með ráðherranum. Hún stjórnar líka hreyfingum og semur dansa milli atriða sem oft eru bráðfyndnir og áhrifamiklir en það er bara allt of mikið af þeim. Þeir glepja stundum áhorfandann burtu frá framvindu verksins og skyggja, held ég (eða er það eitthvað annað?), á litlu stúlkuna á bekknum, Ragnheiði Eyju Ólafsdóttur, táknmyndina fyrir allar hinar litlu stúlkurnar sem brutu glerhús ráðuneytisins og felldu heila ríkisstjórn. Ég hefði líka viljað sjá meira af Þór Túlínus í hlutverki gluggaþvottamannsins, en hann kemur nú eftir nokkra fjarveru tvíefldur til baka í leikhúsið.

Áhorfandi unir auðvitað glaður við að sjá yfirvaldið rassskellt með háði og spéi en það undarlega gerist að hversu fáránlega sem leikararnir haga sér á sviðinu þá toppar það eiginlega ekki þá mynd sem hann sjálfur hefur af valdamönnum og þessu máli öllu.

Hlutskipti leikhússins og leikskálda er sannarlega ekki auðvelt þessa dagana. Hlátur er líknandi, frelsandi , en hvað gerir áhorfandi við það frelsi þegar hann gengur út úr leikhúsinu og mætir fáránleika samfélagsins sjálfs? Eru til einhver svör við því í leikhúsinu?

- -

Upp