Gagnrýni

María Kristjánsdóttir: Dúkkuheimili, annar hluti

María Kristjánsdóttir er leikhúsrýnir Víðsjár. Hún hefur nú gefið út sína gagnrýni á Dúkkuheimili, öðrum hluta. Gagnrýnina má sjá og heyra á menningarvef RÚV en einnig má lesa skrif Maríu í heild sinni hér að neðan.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Árið 2014 var frumsýnt á stóra sviði Borgarleikhússins „Dúkkuheimilið“ eftir Henrik Ibsen í leikstjórn Hörpu Arnardóttur. Í þeirri tímamótasýningu léku þau Unnur Ösp Stefánsdóttir Nóru og Hilmir Snær Guðnason eiginmannn hennar Þorvald Helmer, og er stórleikur þeirra þar enn í fersku minni. Nú fjórum árum seinna fara þau með sömu hlutverk en í dag í verki eftir bandaríska höfundinn, Lucas Hnath þar sem þeirri aldagömlu síendurteknu spurningu leikhúsunnenda er svarað: Hvað varð um Nóru eftir að hún skellti hurðinni? Til að upplýsa okkur um það lætur Hnath Nóru fimmtán árum síðar eða árið 1893 berja á þær sömu dyr. Og innan þeirra mætast svo fjórar persónur úr upphaflega verkinu, Nóra, Þorvaldur, dóttirin Emma og barnfóstran Anna María. Allar eru þær, nítjándu aldar manneskjurnar, því marki brenndar að þær tala og hugsa eins og nútímafólk.

Salka Guðmundsdótttir þýðir listilega Dúkkuheimilið II sem sýnt er á Nýja sviðinu í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. Börkur Jónsson hefur byggt upp leikmynd í anda svissneska leikmyndateiknarans Adolpe Appia sem sló í gegn einmitt þessum „fimmtán árum síðar“ með kubbum sínum, og leik með ljós og skugga. Björn Bergsteinn Guðmundsson ljósahönnuður nýtir náttúrulega tækifærið vel og úr samstarfi þeirra verður mörg falleg myndin til, m.a. í skiptingum milli þátta þar sem leikararnir stíga einhvers konar asískan ninjudans kannski jafnvel, hugsar áhorfandi, leikbrúðudans undir tónlist Unu Sveinbjarnardóttur og stjórn Sveinbjargar Þórhallsdóttur. Þar nýtast líka sterkir litir períódubúninga Stefaníu Adolfsdóttur. Appia var einna þekktastur fyrir myndir sínar í óperum Wagners og reyndar fannst áhorfanda öll sýningin fremur hafa blæ vissra óperusýninga en evrópsks leikhúss og listalífs millistríðsáranna eins og aðstandendur segjast í leikskrá hafa hallast að í stílfærslu sinni, sýninga þar sem aðalpersónum er troðið í formfasta, oft litríka búninga sem þjóna hvorki né styðja persónusköpun en verða hluti af fallegri heildarmynd þegar persónum er stillt upp á sviði nánast eins og brúðum til að taka sín sóló.

Það er í sjálfu sér ekki út í hött því að Dúkkuheimilið II fjallar um manneskjur sem allar eru sjálfmiðaðar og sumar á sannkölluðu egótrippi. Barnfóstran er þó undanskilin, hér leikin af Margréti Helgu Jóhannsdóttur (mikið var annars gaman að fá að sjá hana loks aftur á sviði). En þá aðeins hefði hugmyndin, stílfærslan gengið upp ef leikararnir hefðu horft með húmor á persónurnar. Því hlægileg er hún frá hendi Lucasar Hnath, þessi einstrengingslega tillitslausa Nóra á sinni millistéttarframabraut og hlægilegur hinn lufsulegi Þorvaldur sem hefur tekist á aðeins fimmtán árum eða strax árið 1894 það sem aðeins fáum vestrænum karlmönnum hefur tekist á þeirra hundrað og þrjátíu ára þrauta og þroskagöngu frá því Ibsen skifaði Brúðuheimilið. En mönnum er ekki hlátur í hug í þessari sýningu. Hér ríkir mikil festa og alvara. Hér taka menn hlutina og sjálfa sig hátíðlega. Og því fer sem fer. Hátíðleikinn afhjúpar einungis veikleikana í þessu innihaldsrýra verki Lucasar Hnaths sem varla er meira en fremur einfeldningslegt grín að orðræðu millistéttarkarla og -kvenna í samtíma okkar, sé horft á það mildum augum við lestur. Áhorfandi spyr sig enn fremur hversu djúp „ég líka“ umræðan er innan Leikfélags Reykjavíkur fyrst verk eins og þetta er valið til sýninga og kallarausið í því tekið svona alvarlega.

P.S.

Úps! Eitt nafn hefur gleymst í upptalningu á aðstandendum en það er nafn ungu leikkonunnar sem leikur Emmu, nafn Ebbu Katrínar Finnsdóttur. Hvernig gat ég gleymt henni, sem ég hlakka til að sjá meira af í framtíðinni.

- -

Upp