Borgarleikhúsið

Lygar og leyndardómar

Borgarleikhúsið: Tyrfingur Tyrfingsson

KARTÖFLUÆTURNAR – Nýtt íslenskt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson þar sem tekist er á við örvæntingu, skömm, sektarkennd, leyndardóma og lygar verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu á fimmtudag.

Leikskáldið fæddist árið 1987 og bjó fyrstu árin með foreldrum sínum í starfsmannabústöðunum við Kleppsspítala áður en hann flutti í Kópavog. Hann lauk BA-námi við sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands og stundaði síðan framhaldsnám við Goldsmiths, University of London. Tyrfingur vakti fyrst athygli fyrir skáldskap sinn með leikverkinu Grande sem var lokaverkefni hans við Listaháskóla Íslands árið 2011. Tveimur árum síðar sýndi Borgarleikhúsið einþáttung hans, Skúrinn á sléttunni og árið 2014 var leikritið Bláskjár frumsýnt þar í húsi í samstarfi við leikhópinn Óskabörn ógæfunnar.  Um skeið var Tyrfingur hússkáld í Borgarleikhúsi og afrakstur þess var leikritið Auglýsing ársins. Verk Tyrfings hafa verið þýdd á erlend tungumál og hann hefur notið viðurkenningar fyrir þau. Samhliða leikritun sinni hefur Tyrfingur unnið á bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans, skrifað pistla í glanstímaritið Glamour, komið að verkefnavali í Borgarleikhúsinu og setið í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Leikritin Bláskjár og Auglýsing ársins komu út á bók í útgáfuröð Borgarleikhússins, „Leikrit á bók“.

Leikstjórn þessa nýjasta verks Tyrfings er í höndum Ólafs Egilssonar en leikhópinn skipa: Atli Rafn Sigurðarson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Sigrún Edda Björnsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir.

Leikhusin.is mælir með því að leikhúsáhugafólk skelli sér á þessa sýningu enda ekki á hverjum degi sem nýtt íslenskt leikverk er frumsýnt.

- -

Upp