Fréttir

Lítil von til þess eða hætta á að listamannalaunin leggist af

Mynd: Sjöfn Ólafsdóttir

Stefán Hilmarsson leggst sæmilega óttalaus á koddann þó hann hafi tekið efni til umfjöllunar sem óhætt er að segja að sé eldfimt. Nefnilega sjálf listamannalaunin en varla þarf annað en nefna á nafn og þá rísa upp hópar fólks og orga. Með eða á móti fyrirbærinu.

Stefán gerði sér lítið fyrir á dögunum og skilaði inn bakkalár-ritgerð þar sem þessi umdeildu listamannalaun eru til ítarlegrar umfjöllunar. Stefán er einn af mörgum sem hafði lokið einingunum en látið sitja á hakanum að skila inn lokaritgerð. Nú er það frá.

Stuggað við eftirlegukindum innan akademíunnar

Vísir heyrði í Stefáni, þessum einum vinsælasta tónlistarmanni landsins, sem er þekktur fyrir það innan akademíunnar að gamlar glósur hans í nokkrum áföngum í stjórnmálafræðinni hafa gengið milli nemenda við Háskóla Íslands. Svo skilmerkilegar þykja þær. „Hann kom mér í gegnum stjórnmálafræðina, það er bara þannig,“ segir Stefán Árni Pálsson fjölmiðlamaður til dæmis og vísar þá til hinna gagnlegu punkta sem nafni hans tónlistarmaðurinn tók saman þegar hann sótti kúrsa við HÍ.

Ritgerðin er viðamikil og þarft innlegg í umræðu um þetta umdeilda fyrirbæri. Hún er fyrirliggjandi og opin á Skemmu og óhætt að hvetja þá sem vilja hafa á listamannalaunum skoðun að lesa hana.

Stefán segir að hann hafi óvænt fengið símtal frá Háskóla Íslands þar sem honum var boðið að ljúka verkinu. Svo virðist sem skólinn sé að gera skurk í að stugga við eftirlegukindum í sínu kerfi.

Stefán Hilmarsson er einn af vinsælustu tónlistarmönnum landsins, og hefur lengi troðið upp með Eyjólfi Kristjánssyni félaga sínum. Hann er ekki eins þekktur á fræðasviðinu.FBL/ANTON BRINK

„Á útmánuðum skrifaði ég BA-ritgerð og setti þar með punkt aftan við nám sem ég hóf mér til ánægju fyrir allnokkrum árum. Lokaönnin var ansi annasöm; nýr sonur á heimilinu, fjölmörg músíkferðalög og sitthvað fleira sem lífið bauð upp á. Ég lét því duga að klára pensúmið og sló lokaritgerð á frest,“ segir Stefán á Facebooksíðu sinni. Og yfir hann rignir hamingjuóskum á þeim vettvangi. Víst er að margir þekkja þetta, að eiga ritgerðina eftir.

Skrifaði ritgerðina í rispum

„Sumar og haust tóku svo við með tónleikahaldi, upptökudvöl erlendis, plötuútgáfu og tilheyrandi söngrispum víða, eins og verða vill. Þannig frestaðist ritgerðin áfram og smám saman mjakaðist hún aftar á „to-do“ listann. Var hún mér næstum gleymd þegar ég fékk hringingu frá HÍ í fyrra; boð um að ljúka verkinu. Ég fagnaði því, tók mig til og hér geta áhugasamir fræðst um hið umdeilda fyrirbæri listamannalaun,“ segir Stefán sem útskýrir fyrir vinum sínum hvernig á því stóð að það dróst að ganga frá lokaritgerðinni.

Ekki er gott að segja til um hversu langan tíma það tók að vinna, skrifa og ganga frá ritgerðinni. Höfundur segir að í því liggi allmörg dagsverk. En, í ritgerðinni kynnir hann niðurstöður umfangsmikillar könnunar sem hann efndi til þar sem forvitnast er um afstöðu landsmanna til listmannalaunanna.

Sumar og haust tóku svo við með tónleikahaldi, upptökudvöl erlendis, plötuútgáfu og tilheyrandi söngrispum víða, eins og verða vill, segir Stefán til útskýringar. Hér er hann með félögum sínum í Sálinni, einni vinsælustu hljómsveit landsins fyrr og síðar.

„Ég tók þetta í rispum, fór nokkuð eftir tómi og stuði, könnuna gerði ég síðastliðið haust, skrifaði svolítið í kjölfar þess, en að mestu lagði ég þetta upp og mótaði eftir áramótin.“

Erfitt að vinda ofan af rógrónum ríkisútgjöldum

Hvernig kom það til að þetta tiltekna efni varð fyrir valinu og til umfjöllunar?

„Ég hafði frá upphafi haft þetta efni í huga, þannig að það lá alltaf í þankanum. Þetta er vitanlega vinsælt umfjöllunarefni og „fastur liður í skemmtanalífi landsmanna að deila um úthlutun listamannalauna“, eins og Sigurður A. Magnússon orðaði það í blaðagrein árið 1964. Það hefur lítið breyst.“

Hverjar eru helstu niðurstöður og var eitthvað í þessu sem kom þér verulega á óvart við vinnslu ritgerðarinnar?

„Ritgerðin brýtur varla blað í umfjöllun um þennan málaflokk né kollvarpar kenningum, enda ekki ætlunin.

Ef eitthvað mætti í stuttu máli segja um niðurstöður, þá væri það kannski það, að afar ólíklegt er að núverandi fyrirkomulag breytist mikið í bráð.

Það er í fyrsta lagi erfitt að spóla ofan af rótgrónum og kerfisbundnum ríkisútgjöldum sem þessum.

Í ritgerðinni er að finna fjöldann allan af skýringarmyndum, súlu og línuritum þar sem farið er í saumana á viðamikilli viðhorfskönnun sem Stefán efndi til með það fyrir augum að fá einhverja hugmynd um hver afstaða almennings er til listamannalaunanna.

Þar fyrir utan er lítil hætta á því, eða von til þess, eftir því hvar menn standa, að stjórnmálaflokkur legði til verulegan niðurskurð eða afnám listamannalauna, því slíkt kallaði yfir viðkomandi flokk brotsjó andúðar áhrifamikilla þrýstihópa.“

Er ekki að kynna sínar skoðanir á listamannalaunum

Stefán segir að inn í þetta blandist svo veik staða íslenskunnar í hnattvæddum heimi nútímans. Sem er sterk breyta.

„Tungumálið er jafnan miðlægt í umfjöllun um listastyrki og ein sterkasta réttlætingarstoðin, eins og niðurstöður skoðanakönnunarinnar sýna reyndar fram á. Eðlilega felur könnunin í sér ákveðnar niðurstöður og þar finnst mér eitt og annað athyglisvert, þótt ef til vill kunni málsmetandi fagfólki að finnast fátt koma á óvart.“

Listamannalaunin hafa löngum vakið hörð viðbrögð í umræðunni, vafðist ekkert fyrir þér að fara að gramsa í þessu þá að teknu tilliti til þess að það kynni að ýfa einhverjar fjaðrir? Óttastu viðbrögð?

Stefán fagnar nú því að vera kominn með BA-gráðu en ritgerðin er hin veglegasta og fékk Stefán ágætis einkunn fyrir hana. Mynd: SJÖFN ÓLAFSDÓTTIR

„Ritgerðin endurspeglar ekki mína skoðun á viðfangsefninu, en kannski má lesa á milli lína hug minn til einstakra þátta. Þetta er fyrst og fremst hlutlæg úttekt á stöðunni með hliðsjón af sögunni, þekktum rökum með og móti, skrifum fræðimanna og öðrum fyrirliggjandi heimildum, tölfræði að hluta, auk könnunarinnar auðvitað. Þannig að ég leggst sæmilega óttalaus á koddann.“

Popparar fá ekki listamannalaun

Vitaskuld er hér um að ræða ritgerð sem lýtur fræðilegum forsendum og vísindalegri aðferð – menn setja fram kenningu og reyna svo að finna til öll mótrök og fara yfir þau, þá með það fyrir augum að kenningin standi traustari fótum eða þá að hún standist hreinlega ekki. Þú kemur úr heimi dægurtónlistarinnar og þar hafa foringjar á borð við Magnús Kjartansson og margir fleiri talað um að hin nýgilda tónlist eins og Jakob Frímann Magnússon vill kalla rokk- og dægurtónlist, hafi verið forsmáð meðan klassísk tónlist nýtur umtalsvert meiri stuðnings frá ríkinu. Sem sagt, ert þú sjálfur með mótaðar hugmyndir gagnvart viðfangsefninu og/eða hafa þær breyst við vinnslu ritgerðarinnar?

„Ég reyni sem fyrr sagði að vera hlutlægur. Svokallaðri sígildri list og nýgildri stilli ég ekki upp sem andstæðum í ritgerðinni, þótt aðeins sé um þau hugtök fjallað. Hins vegar má vel segja, án þess að ég nefni það í ritgerðinni, að hvað músík varðar þá sýni reynslan tvímælalítið að hin „alvarlegri“ tónlist hefur í gegnum tíðina notið mun meiri opinbers stuðnings en „léttari“ tónlistin.

Stefán eins og flestir landsmenn þekkja hann, í sviðsljósinu með míkrófón í hönd. Ekki beinlínis ímynd fræðimannsins. Mynd: RÓSA JÓHANNSDÓTTIR

Ég læt þess reyndar getið í ritgerðinni að það sé sumpart kaldhæðnislegt að það tónlistarfólk, sem borið hefur hróður landsins víðast og meðal annars lagt með list sinni mest af mörkum til svokallaðrar „skapandi ferðaþjónustu“ á seinni árum, hefur í gegnum tíðina ekki notið mikilla styrkja, þótt rök hnígi til þess að slíkum styrkjum yrði vel varið. Ég efast til dæmis um að nokkur meðlimur Sigur rósar, Of Monsters and Men eða Kaleo hafi hlotið listamannalaun.“

Breytt lög um höfundarrétt

Stefán segir að það verði þó að segjast að nokkuð hefur færst til betri vegar í þessum efnum, meðal annars með tilkomu sérstaks tónlistarsjóðs og útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar, þótt slíkt falli ekki beinlínis undir hugtakið listamannlaun.

„Þá vil ég nota tækifærið hér og geta þess að tónhöfundar, léttir sem alvarlegir, bíða þess nú eftirvæntingarfullir að ríkisstjórnin breyti skattlagningu höfundarréttartekna, líkt og um er getið í stjórnarsáttmálanum, en það hefur verið baráttumál höfunda um árabil að um höfundaréttartekjur, sem eru í eðli sínu líkar leigutekjum, gildi sömu reglur og um slíkar tekjur. Einkum er óeðlilegt að erfingi tónverks greiði tekjuskatt af því á meðan hann greiðir fjármagnstekjuskatt af hagnaði annarra eigna sem hann kann að hafa erft.“

Starfslaun ópíum listafólks

Þú tekur til ýmis rök með og á móti og ferð í umfjöllunarefnið sögulega. Óhjákvæmilegt er þá að velta fyrir sér merkingu hins margslungna hugtaks list. Býr ekki óhjákvæmilega sú hættan í ríkisstyrkjum að vinna hreinlega gegn eðli listarinnar; að listamennirnir breytist í varðhunda viðtekinna viðhorfa til að slátra ekki voninni um listamannalaun?

„Já, um slík og fleiri svipuð rök er fjallað töluvert í ritgerðinni, eðli málsins samkvæmt, meðal annars þá þekktu skoðun sumra, ekki síst andstæðinga styrkveitinga, að listin eigi umfram allt að vera sjálfsprottin, óheft og óháð boðvaldi og ætti frekar að endurspegla tíðaranda en möguleg sjónarmið þeirra sem sitja við stjórnvölinn og útdeila styrkjum. Til dæmis heitir einn kaflinn „Eru starfslaun „ópíum“ listafólksins?“.

Fjölskyldumaðurinn Stefán, hér ásamt syni sínum Birgi Steini og eiginkonu Önnu Björk Birgisdóttur. Í ritgerð Stefáns er meðal annars fjallað um það hvort ríkisstyrkir til lista geti reynst hin dauða hönd. Mynd: FBL/VALLI

Ein helsta niðurstaðan, sem kannski kemur ekki á óvart en liggur nú fyrir, er sú að þeir sem stilla sér heldur upp til vinstri á hinum flokkspólitíska ási séu hlynntari því að ríkið styrki listamenn meðan þeir sem telja sig hægrisinnaða hafa meiri efasemdir uppi; hvar staðsetur þú þig sjálfur á hinu pólitíska spektrúmi?

„Þetta er nú ansi persónuleg spurning.

Mér finnst þó óþarfi að fela það að ég hef yfirleitt staðsett mig hægra megin við miðju.

Stundum finnst mér ég vera hófsamur frjálshyggjumaður, stundum framfarasinnaður íhaldsmaður og stundum samfélagslega ábyrgur hægrimaður. Ég hygg þó að illmögulegt sé að ráða af þessari ritgerð hvar höfundurinn stendur í pólitík.“

Sem áður sagði er ritgerðin ítarleg en þungamiðja hennar er megindleg rannsókn; skoðanakönnun á netinu, þar sem hugur fólks til fjárstyrkja til handa listafólki var skoðaður með tilliti til kyns, aldurs, búsetu, stjórnmálaskoðunar, menntunarstigs og þess hvort þátttakandi væri listamaður eða venslaður listafólki. Tæplega fjögur þúsund manns tóku þátt.

Hverjir eru með og hverjir eru á móti?

Í ritgerðinni dregur Stefán saman helstu niðurstöðurnar, sem eru hinar forvitnilegustu:

• Þeir sem stilla sér upp vinstra megin við miðju í hinu pólitíska litrófi eru miklum mun viljugri til að styðja listafólk með opinberu fé, en þeir sem stilla sér upp hægra megin eða á miðjunni.

• Móðurmálið er lykilbreyta. Almennur vilji virðist til þess að styrkja listgreinar sem hafa íslenskuna sem hryggjarstykki. Bókmenntir og tónlist eru enda þær greinar sem fólk virðist helst viljugt til að veita opinberan fjárstuðning.

• Menntun er einnig sterk breyta; þeir sem sækja sér háskólamenntun eru töluvert hlynntari opinberum listastyrkjum. Draga mætti þá hliðarályktun að meirihluti háskólamenntaðra séu ekki hægrimenn.

• Þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins eru síður hlynntir listastyrkjum en höfuðborgarbúar. Þeir sem búa erlendis virðast fylgjandi styrkjum. Draga mætti þá hliðarályktun að hátt hlutfall Íslendinga sem búa erlendis sé menntafólk.

• Konur virðast hlynntari styrkjum til listafólks en karlar.

• Eldra fólk virðist ekki mjög fylgjandi listastyrkjum, nema þegar íslenskan á í hlut.

• Fólk virðist mun viljugra til að veita nýliðum opinberan fjárstuðning, en þeim sem reyndari eru.

• Fólk virðist sætta sig mun síður við „heiðurslaunin“ svokölluðu, en hin hefðbundnu starfslaun listamanna.

• Fólk virðist ekki fyllilega sannfært um jákvæð hagræn áhrif listamannalauna.

• Orðalag í skoðanakönnunum getur skipt máli og haft áhrif á niðurstöður.

- -

Upp