Fréttir

Leikfélag Kópavogs frumsýnir Tom, Dick og Harry

Leikfélag Kópavogs frumsýnir annað kvöld farsa eftir þá Ray og Michael Cooney. Sá fyrrnefndi er ókrýndur konungur farsans og sá síðarnefndi er sonur hans sem einnig starfar sem handritshöfundur. Farsinn sem þeir feðgar skrifuðu árið 2006 ber heitið Tom, Dick og Harry. Leikstjóri uppfærslunnar hjá Leikfélagið Kópavogs er Hörður Sigurðarson.

Á vefsíðu Leikfélags Kópavogs segir þetta um verkið:

„Smygl, sundurlimuð lík og ólöglegir innflytjendur var ekki beint það sem Tom og Linda sáu fyrir sér, nú þegar von er á konunni frá ættleiðingarstofunni til að taka út aðstæður á heimilinu. Leikfélag Kópavogs frumsýnir tryllingsfarsann Tom, Dick og Harry eftir feðgana Ray og Michael Cooney í þýðingu Harðar Sigurðarsonar. 

Tom og Linda gera sér vonir um að ættleiða barn og eiga von á konu frá ættleiðingarstofunni til að taka út aðstæður. Þau vilja auðvitað sýna frú Potter sitt allra besta en yngri bræðrum Tom, þeim Dick og Harry, tekst rækilega að klúðra fyrir þeim málum. Tóbakssmygl, ólöglegir innflytjendur og sundurlimuð lík koma við sögu í þessum tryllingsfarsa sem kitlar hláturtaugarnar svo um munar.“

Miða á sýninguna má panta á vef Leikfélags Kópavogs.

- -

Upp