Gagnrýni

Kópavogur er eins og vörumerki fyrir Tyrfing

Ljósmynd: DV

Leikdómur Hlínar Agnarsdóttur einnig birtur í Menningunni.

Kartöfluæturnar eftir Tyrfing Tyrfingsson, sem var frumsýnt í Borgarleikhúsinu fyrir skemmstu í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Verkinu má lýsa sem kolsvörtum gamanharmleik sem fjallar um hjúkrunarfræðingin Lísu, sem drýgði dáðir í stríðinu í Kosovo, en þarf að gera upp fortíðina við stjúpson sinn og dóttur þegar hún snýr aftur í Vallhólmann í Kópavogi.

Hlátur sem breytist í djúpa þögn

Hlín Agnarsdóttir segir verkið bera öll helstu höfundareinkenni Tyrfings, fjölskyldudrama en alls ekki í hefðbundnum stíl, og gerist í Kópavogi eins og fyrri verk hans. „Kópavogur er orðið eins og vörumerki fyrir Tyrfing,“ segir Hlín. Höfundurinn sé orðheppinn og kaldhæðinn en undirliggjandi sé líka mikill sársauki. „Það var dálítið merkilegt á frumsýningunni að áhorfendur stundum snarþögnuðu; hláturinn þagnaði í djúpri þögn af þvi að fólk var ekki víst um hvernig það ætti að taka því sem fram fór.“

Hlín segir einn helsta styrkleiki verksins vera hvað persónurnar eru skýrar af hálfu höfundar. „Jafnhræðilegar og þær eru verða þær samt sympatískar að lokum. Við höldum með þeim og finnum til með þeim því þetta eru geggjaðir hlutir sem þær eru að ganga í gegnum.“

Lausir endar út um allt

Sigrún Edda Björnsdóttir leikur aðalhlutverkið, móðurina Lísu, og fer á kostum. „Hún er firnasterk, hún heldur þessu saman einhvern veginn. En hún hefur líka mjög flotta leikara með sér, Atli Rafn [SIgurðsson] sem leikur stjúpsoninn, þau eru meginpersónur verksins. Helstu átök verksins hverfast um þau tvö. Sigrún Edda er stórkostleg leikkona. Hún er þvílíkur reynslubolti á sviðinu að það klikkar ekkert. Það sama má segja um leikhópinn, ég sá bæði generalprufu og frumsýningu og þau fóru fram úr sér á frumsýningunni, þau voru svo sterk.“

Hún hrósar líka leikmynd Brynju Björnsdóttur fyrir leikmynd sem undirstriki hálfköruð samskipti persónanna. „Þetta er um hálfkarað líf, líf þar sem er aldrei gengið frá neinum endum, það eru lausir endar út um allt,“ segir Hlín og bætir við. „Frábær sýning sem ég held að fólk ætti að drífa sig á.“

- -

Upp