Gagnrýni

Jón Viðar Jónsson: Fly me to the Moon

Eftirfarandi gagnrýni er fengin af Facebook-síðunni Jón Viðar gagnrýnir.

Jón Viðar Jónsson skrifar:
Ekki nógu fyndið …

Marie Jones heitir írsk leikkona, leikskáld og leikstjóri. Hún hefur skrifað nokkur leikrit og eitt þeirra, Með fulla vasa af grjóti, sló í gegn á sínum tíma, meðal annars hér á landi. Öllum er okkur í fersku minni glæsileg meðferð þeirra Stefáns Karl Stefánssonar og Hilmis Snæs Guðnasonar á leiknum, síðast í sjónvarpi fyrir um tæpu ári. Við lauslega leit á Netinu sýnist mér ekkert annað verka Jones hafa náð flugi, alltént ekki neitt í líkingu við Með fulla vasa af grjóti.

Það er svo sem ekkert einsdæmi að höfundar nái að skrifa eitt verk sem öðlast vinsældir, og síðan ekki söguna meir. Í leiknum um írsku strákana tvo sem ólu með sér barnalega drauma um að komast inn í kvikmyndabransann, þar sem hann var mættur í öllu sínu grimma veldi í litla þorpið þeirra, fann Marie Jones efnivið sprottin úr samfélagslegum veruleika sem hún þekkti og gat lýst af nærfærinni samúð, í bland við húmorinn. Hún reynir að endurtaka leikinn í leikriti því sem Þjóðleikhúsið frumsýndi í Kassanum í gærkveldi, Fly Me to the Moon, en tekst miður.

Þetta er einnig tveggja manna leikur, kómískur dúett, sem höfundurinn leitast við að spinna upp í hefðbundinn dellufarsa. Hann var frumsýndur fyrir sex árum á Broadway, við ærið misjafnar undirtektir, sýnist mér við snögga Netleit (fábrotin leikskráin upplýsir ekkert um það). Persónurnar eru tvær heimahjúkkur í Belfast og halda sig dottnar í lukkupott þegar gamall maður, sem þær eru að sinna, deyr óvænt í höndunum á þeim. Önnur þeirra er framtakssöm og óprúttin, hin er heiðarlegri og dregur á eftir sér fæturnar þegar hin hugmyndaríka stallsystir hennar reynir að fá hana til að gera sér dauða gamla mannsins að féþúfu. Hana skortir þó viljafestu til að standast þær freistingar sem hin er fundvís á; annars hefði náttúrlega ekki orðið neitt havarí og enginn farsi.

Það er tvennt sem ég skil ekki. Í fyrsta lagi hvernig þeim í Þjóðleikhúsinu dettur yfirleitt í hug að taka til meðferðar ekki merkilegra verk en þetta er. Viðbrögð kvennanna, strax í upphafi, þegar þær uppgötva að sá gamli er látinn á klósettinu eru frekar sérkennileg (af hverju ekki bara að taka í hurðarhúninn í stað þess að banka á hurðina og öskra á kallinn?) og batnar ekki þegar á líður. Í góðum farsa fetar delluverkið alltaf einhvern meðalveg á milli hins trúverðuga og hins fáránlega, en þeirri jafnvægislist hefur Marie Jones ekki náð tökum á hér. Auðvitað eru þarna inn á milli ágætis brandarar sem má brosa og jafnvel hlæja að, en það er bara ekki nóg.

Hitt sem ég skil ekki er hvers vegna Þjóðleikhúsið er að flytja inn höfundinn til að sviðsetja verkið. Marie Jones er hreint enginn fyrsta klassa leikstjóri, eftir þeirri vinnu að dæma sem hún hefur hér skilað. Anna Svava Knútsdóttir (sem var gaman að fá að sjá á sviði Þjóðleikhússins) og Ólafía Hrönn Jónsdóttir eru færar í flestan sjó þegar kómíkin er annars vegar, en hér voru þær – með leyfi að segja – eins og fiskar á þurru landi. Sýningin í gærkveldi virtist ekki nema hálfæfð, og varla það; hún hjakkaði eða haltraði áfram í algerum skorti á hraða og hrynjandi, sem skrifast á reikning leikstjórans fyrst og fremst. Ég þykist vita að þær báðar, Anna Svava og Ólafía Hrönn, hefðu getað gert mun betur, jafnvel úr ekki betri texta, undir kunnáttusamlegri leikstjórn. Þegar ég svipaðist um áhorfendabekki í gærkveldi sá ég að minnsta kosti fimm íslenska leikstjóra sem hafa allir gert ágætis sýningar af þessu tagi og ég er viss um að hefðu aldrei látið sjá eftir sig annað eins handverk. Af hverju var ekki leitað til einhvers þeirra – nú eða einhvers annars því við eigum nóg af leikstjórum sem ráða við verk sem þetta? Hins vegar má hrósa Snorra Frey Hilmarssyni fyrir ágæta leikmynd og sviðsumgerð; hún einkenndist af nostri við smáatriði sem sögðu sitt um fábrotið líf gamla manninn sem þarna býr og áhorfendur fá aldrei að sjá nema handlegginn af. Þýðing Guðna Kolbeinssonar hljómaði vel; það er ekkert að því að láta leikinn halda sínu enska heiti, sem er vísun í söng sem Frank Sinatra gerði frægan á sinni tíð, en betur hefði farið á því að hafa það innan tilvitnunarmerkja.

Frumsýningargestir voru margir yfirmáta velviljaðir, auðheyrilega staðráðnir í að skemmta sér, klöppuðu mikið og hlógu dátt hvenær sem þeir gátu (alloft meira en þeir gátu). En margir sátu hljóðir og sýndu lítil viðbrögð, og almennur hlátur varð kannski einu sinni eða tvisvar, ef þá það. Sýningin datt einfaldlega dauð niður.
Æi já, heldur er þetta svona dapurleg byrjun á leikári Þjóðleikhússins. Eitt fær leikhúsið þó prik fyrir og það eru nýju stólarnir í Kassanum. Þeir eru mjög þægilegir og klæddir rauðu áklæði sem gefur salnum hlýlegan og hæfilega virðulegan svip. Það var alltaf fyrirkvíðanlegt að setjast með aðkreppta fætur í gömlu stólana og þakkarvert að þeim pyntingum skuli nú lokið.

- -

Upp