Gagnrýni

Jón Viðar Jónsson: Dúkkuheimili, annar hluti

Jón Viðar Jónsson heldur úti síðu á Facebook þar sem hann birtir leikhúsgagnrýnir sínar. Í gær sendi hann frá sér fyrstu gagnrýni leikársins sem fjallar um sýningu Borgarleikhússins, Dúkkuheimili, annan hluta.

Jón Viðar Jónsson skrifar:

Ibsensk undanrenna í Borgarleikhúsinu

Leikfélag Reykjavíkur byrjar leikárið með sýningu á nýju bandarísku leikriti. Það fjallar um fræg hjón í leiklistarsögunni, Nóru og Þorvald Helmer. Nóra er reyndar ekki lengur Helmer eftir að hún gekk á dyr hér um árið sællar minningar; Brúðuheimili Ibsens sviðsetti uppreisn nútímakonunnar gegn forstokkuðu karlveldi svo eftirminnilega þegar árið 1879 að ekki hafa aðrir betur gert það síðan. Alltént ekki meðal leikritaskálda.
Það er auðvitað meiri háttar fífldirfska að ætla sér að skrifa leikrit sem á að vera framhald á slíku verki. Lucas Hnatn er 39 ára gamall bandaríkjamaður sem hefur nú náð að sveifla sér upp á Broadway hangandi í frakkalöfum Henriks Ibsen. Ekki þarf að orðlengja að hann kemur hart niður. Hann á ekkert erindi í föt Ibsens, þau eru mörgum númerum of stór fyrir hann. Það er vandræðalegt að sitja undir þessu og horfa (eða öllu heldur hlusta) á hann rembast við að stæla stórskáldið með grafalvalegum tilfinningaþrungnum samtölum sem eru nógu vel skrifuð til að vekja í byrjun áhuga manns og jafnvel væntingar sem þau standa svo engan veginn undir þegar á líður. Sérstaklega var þreytandi að hlusta á pexið í Nóru og Þorvaldi, ósköp hversdagslegt hjónarifrildi, vægast sagt anti-klímax eftir þetta fimmtán ára langa hlé. Höfundur hefur sennilega lært leikritagerð á skólabekk (ef ég les rétt það sem kemur fram á wikipediu), en skáld er hann ekki, svo mikið er víst. Það geta þeir nefnilega ekki kennt í háskólunum þó þeir geti kennt margt.
Það sem mest er að í þessu leikriti er lýsingin á Nóru sjálfri. Hún birtist hér sem gallharður egóisti, fullur hroka og sjálfumgleði, en er undir niðri gunga. Henni hefur þó gengið afskaplega vel á þessum fimmtán árum frá því hún skellti hurðum og varpaði frá sér skyldum eiginkonu og móður eins og skítugri flík. Hún hefur slegið í gegn sem femínískur höfundur (undir dulnefni að sjálfsögðu) auk þess sem hún hefur lagt stund á fjölbreytt ástalíf. Eina ástæðan sem höfundur getur látið sér detta í hug fyrir endurkomu hennar er tæknilegs eðlis; það hefur sem sé gleymst að ganga frá skilnaðarpappírum og nú getur hún átt von á að lenda í lagalegu klandri út af því. Ekki það að hún hafi nokkurn minnsta vott af samviskubiti eða löngun til að sjá hvernig börnum hennar hefur vegnað, að alast upp móðurlaus undir umsjá gamallar barnfóstru. Eftir stutta viðkynningu hefur áhorfandinn séð í gegnum þennan frostpinna og misst alla löngun til að kynnast honum frekar. Það gerði að minnsta kosti sá áhorfandi sem hér tjáir skoðun sína.
Ég vorkenni leikurunum, Unni Ösp Stefánsdóttur og Hilmi Snæ Guðnasyni, að þurfa að leika þetta pappafólk. Unnur Ösp er raunar alltof ungleg í hlutverkið. Ég sé á myndum úr bandarísku uppfærslunni, sem finna má á vefnum, að Nóra er þar miðaldra kona, og vel það. Það var frekar skringilegt að hlusta á Nóru Unnar Aspar, mæðulega á svip, telja upp elskhuga sína í einu af atriðum verksins. Þvílík afköst af ekki eldri manneskju, hugsar maður, og ekki hefur hún látið á sjá þó þeir hafi víst allir verið meira eða minna mislukkaðir, þessir ástmenn hennar. Já lífið utan heimilisveggjanna hefur ekki verið eintómur dans á rósum og enn langt í land að konur setji frelsið ofar öllu ef eitthvað er að marka dótturina Emmu sem fær að vera með sína ræðu eftir hlé. Annars skila leikararnir fjórir sínu bara vel, þó að Hilmir Snær skari eins og venjulega framúr, einkum í fyrra samtali hjónanna, en auk hans og Unnar eru þær Margrét Helga Jóhannsdóttir og Ebba Katrín Finnsdóttir með í þessu. Verst bara hvað þetta er lélegt og leiðinlegt leikrit sem þau þurfa að leika í.
Sviðsetning Unu Þorleifsdóttur er vel af hendi leyst, öll í merki einfaldleikans. Engir leikmunir, aðeins tveir stólar. Og leikmynd Barkar Jónssonar, eins konar tímalaus abstrakt-skúlptur á baksviði, fallega lýstur af Birni Bergsteini Guðmundssyni, er eiginlega alltof flott fyrir þetta þunnildi. Sama má segja um búninga Stefaníu Adolfsdóttur sem eru í „períóðu“, kyrfilega viktoríanskir, litsterkir og fagurlega sniðnir. Þessir kontrastar voru sýnilega útpældir og virkuðu mjög vel. Mímískir brúðuballettar leikenda milli atriða – eða hvað á að kalla það – voru virðingarverðar tilraunir leikstjórans til að blása lífi í þetta lík sem hann sat uppi með, en breyttu litlu. Og þó – líkast til gerðu þeir kvöldið aðeins bærilegra.
Að lokum: Hvaða sérviska er það eiginlega að kalla leikritið „dúkkuheimili“ ? Er Brúðuheimili ekki fullgóð þýðing? Orðið dúkka er í íslensku sletta og barnamál. Á ensku heitir leikrit þetta A Doll´s House, Part 2. Það er ekkert sem gefur tilefni til að breyta því.

- -

Upp