Fréttir

Jóhann Sigurðarson býður til sönglagaveislu

Mynd: Flottasta áhöfnin í flotanum

Stórleikarinn, JÓHANN SIGURÐARSON, býður til sönglagaveislu í Salnum þann 10. nóvember. Þema tónleikanna er sjómannalög fyrr og síðar.

Jóhann hefur frá blautu barnsbeini verið einlægur aðdáandi þess sem kalla mætti hina íslensku sjómannalagahefð, en fullyrða má að hver einasti landsmaður sem kominn er á eða yfir miðjan aldur geti raulað sjómannaslagara.

Á tónleikunum verða helstu sjómannasöngvum fyrri tíðar gerð góð skil, lögum eins og „Ship o-hoj“ og „Simbi sjómaður“, en vinsæl lög seinni tíma fljóta líka með.

En ekki er nóg með það, heldur verða frumflutt ný lög eftir nokkra af okkar fremstu tónhöfundum, m.a. Gunnar Þórðarson og Guðmund Jónsson. Eru þetta verk í anda gömlu laganna, við texta Friðriks Sturlusonar, sem fjalla um bjartar og dökkar hliðar sjómannslífsins; ástina, lífið, sorgir, gleði, þrár og söknuð.

Stórsöngvarinn og skútusjómaðurinn EGILL ÓLAFSSON verður sérstakur gestur Jóhanns í Salnum og mun syngja nokkur lög af alkunnu listfengi. Þá mun einkar vandaður karlakór setja sægrænan lit á vel valin númer.

Sviðsáhöfn í Salnum verður annars sem hér segir: KARL OLGEIRSSON (harmonikka, orgel og píanó), ÁSTVALDUR TRAUSTASON (píanó og harmonikka), PÉTUR VALGARÐ (gítarar), MATTHÍAS STEFÁNSSON (fiðla, mandolín og gítar), MAGNÚS MAGNÚSSON (trommur), Jens Hansson (saxófónn) og FRIÐRIK STURLUSON (bassagítar).

- -

Upp