Fréttir

Hverjir hafa verið Þjóðleikhússtjórar frá upphafi?

Ljósmynd: Morgunblaðið. Frá vinstri: Gunnar Eyjólfsson, Guðlaugur Rósinkranz þjóðleikhússstjóri, Sigríður Þorvaldsdóttir og Róbert Arnfinnsson.

Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar. Í Þjóðleikhúsinu skal iðka leiklist og þær listgreinar aðrar sem leiksviði eru tengdar. Þjóðleikhúsið skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á þessum list­greinum og stuðla að þróun þeirra. Það skal kosta kapps um að efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna og meðferð íslenskrar tungu.

Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra sjónleikja. Jafnframt skal það standa að flutningi á óperum og söngleikjum og listdanssýningum. Á hverju leikári skulu eitt eða fleiri viðfangsefni sérstaklega ætluð börnum. Á vegum Þjóðleikhússins skulu árlega farnar leikferðir sem víðast um landið. Einnig skulu farnar leikferðir til annarra landa og fengnir til Íslands erlendir listamenn, hvort tveggja eftir því sem aðstæður leyfa.

Menntamálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn, að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Skipaður skal maður með staðgóða þekkingu á starfi leikhúsa. Ætíð skal auglýsa embættið laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils. Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og markar listræna stefnu þess í samráði við þjóðleikhúsráð. Hann stýrir leikhúsinu samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum.

En hverjir hafa gegnt stöðu Þjóðleikhússtjóra frá upphafi?

Þjóðleikhússtjórar frá upphafi:
1949-1972 Guðlaugur Rósinkranz
1972-1983 Sveinn Einarsson
1983-1991 Gísli Alfreðsson
1991-2004 Stefán Baldursson
2005-2014 Tinna Gunnlaugsdóttir
2015- Ari Matthíasson

Guðlaugur Rósinkranz
Fyrsti þjóðleikhússtjórinn var Guðlaugur Rósinkranz, og gegndi hann starfinu í hvorki meira né minna en 23 ár. Guðlaugur var við nám í Svíþjóð á árunum í kringum 1930, og var eftir það mikill áhugamaður um norræna samvinnu. Þá gegndi hann stöðu yfirkennara við Samvinnuskólann og vann þar við hlið Jónasar Jónssonar frá Hriflu í áraraðir.
Í ævisögu sinni; ,,Allt var það indælt stríð” segir Guðlaugur:
,,Þegar ég var spurður hvernig mér líkaði þjóðleikhússtjórastarfið: Er þetta ekki
hræðilega erfitt? Þá svaraði ég hiklaust og geri enn: Það var oft erfitt, en þetta
var svo fjölbreytt og skemmtilegt viðfangsefni að ekkert get ég hugsað mér
jafnskemmtilegt. Sérstaklega var ánægjulegt að vinna við uppbyggingu þessarar
merkilegu stofnunar alveg frá byrjun. Starf þetta veitti mér, þó erfitt væri, og
kannski einmitt vegna þess, mikla lífsgleði og fullnægingu í lífinu sem ég vildi
ekki hafa farið á mis við.”
(Guðlaugur Rósinkranz: Allt var það indælt stríð, Örn og Örlygur, 1977)

Sveinn Einarsson
Leikstjórinn Sveinn Einarsson (f. 1934) gegndi stöðu þjóðleikhússtjóra í rúman áratug á árunum 1972-1983. Hann hafði áður verið leikhússtjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur á árunum 1963-72. Sveinn hefur leikstýrt á níunda tug leikverka, þar af fimmtán í sjónvarpi og á annan tug erlendis. Hann er stofnandi og stjórnandi leikhópsins Bandamanna, sem ferðast hefur víða um heim með sýningar sínar. Þá hefur hann sent frá sér nokkur ritverk, m.a. Íslensk leiklist I og II og tvær bækur um árin annars vegar sem hann var leikhússtjóri LR (Níu ár í neðra) og um árin sem hann var þjóðleikhússtjóri (Ellefu ár í efra). Sveinn hefur verið varaforseti Alþjóðasamtaka leikhúsmanna (ITI), sinnt trúnaðarstörfum á norrænum og alþjóðlegum vettvangi, m.a. fyrir Evrópuráðið og var 2001 kjörinn í aðalstjórn UNESCO.

Gísli Alfreðsson
Gísli var þjóðleikhússtjóri árin 1983-1991. Gísli nam í Leiklistarskóla Ævars R. Kvaran í 3 ár. Sem barn og unglingur lék hann í mörgum útvarpsleikritum, auk sviðsverka í Keflavík. Hann hóf nám í rafmagnsverkfræði við Tekníska háskólann í München að loknu stúdentsprófi frá MR. En tveimur árum síðar sneri hann sér alfarið að leiklistinni og settist í leiklistarskóla Kammerspiele leikhússins í München. Að námi loknu lék hann um skeið í Þjóðleikhúsinu í München, en haustið 1961 bauðst honum aðalhlutverk í leikritinu Gestagangi eftir Sigurð A. Magnússon og tók hann því og starfaði eftir það sem fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið. Hann lék fjölda hlutverka í leikhúsinu, útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Fljótlega hóf hann einnig að leikstýra bæði á vegum Grímu, Þjóðleikhússins og í nágrannabæjum. Hann leikstýrði einnig mörgum verkum í útvarpi og sjónvarpi. Gísli settist í stjórn Félags íslenskra leikara árið 1966, fyrst sem ritari, en 1974 varð hann formaður til ársins 1983. Þegar starfstíma hans sem leikhússtjóra lauk sagði hann leikarasamningi sínum lausum við Þjóðleikhúsið vegna ágreinings um hópuppsagnir. Að loknu starfi hans við Þjóðleikhúsið varð hann skólastjóri Leiklistarskóla Íslands, og gegndi því til ársins 2000.

Stefán Baldursson
Á árunum 1991 til 2005 var Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri. Hann lauk námi árið 1971 í leikhús- og kvikmyndafræðum frá Stokkhólmsháskóla. Hann starfaði um skeið við leiklistardeild útvarpsins og við gerð sjónvarpsþátta. Í Þjóðleikhúsinu hefur Stefán sett upp fjölda sýninga, meðal annars Kaupmann í Feneyjum, Góðu sálina í Sesúan, Grænjaxla, Stundarfrið, Sumargesti, Brúðarmyndina, My Fair Lady, Stakkaskipti, Villiöndina, Brúðuheimili, Horfðu reiður um öxl og Veislunni. Stefán hefur einnig starfað sem leikstjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, Alþýðuleikhúsinu, Nemendaleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur, þar sem hann var leikhússtjóri í 7 ár og stjórnaði á þeim tíma meðal annars Sölku Völku, Barni í Garðinum, Gísl, Draumi á Jónsmessunótt og Degi vonar. Stefán hefur leikstýrt á sjötta tug útvarpsleikrita og ýmsum sjónvarpsverkefnum, þeirra á meðal Liðinni tíð, Stundarfriði, áramótaskaupum og Næturgöngu. Hann hlaut Menningarverðlaun Dagblaðsins í leiklist árið 1979, í fyrsta sinn sem þau voru veitt. Eftir að Stefán lét af starfi leikhússtjóra LR leikstýrði hann fjölmörgum sýningum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bandaríkjunum, þeirra á meðal Sölku Völku í Osló, Villiöndinni og Stræti í Árósum og Stund gaupunnar og Degi vonar í Álaborg.

Tinna Gunnlaugsdóttir
Tinna Gunnlaugsdóttir lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1978. Tinna hefur verið fastráðin við Þjóðleikhúsið í tvo áratugi og leikið fjölmörg hlutverk þar af mörg burðarhlutverk. Þar má nefna Snæfríði Íslandssól í Íslandsklukkunni, eiginkonuna í Rashomon, titilhlutverkið í Yermu, greifynjuna Nastösju Filippovnu í Fávitanum, Lois í Leigjandanum, Geirþrúði drottningu í Hamlet, Fedru í samnefndu leikriti, Elsu í Veislunni og Pasha Lavrenjovu í Svartri mjólk. Tinna hefur einnig leikið hér ýmis gamanhlutverk, meðal annars Rítu í Ríta gengur menntaveginn, Bíbí í Skvaldri, Kíkí í Kjaftagangi og Álfdísi í Nönnu systur. Hún lék Maj í Elskaðu mig hjá Alþýðuleikhúsinu og Dóru í Á sama tíma að ári og Á sama tíma síðar í Loftkastalanum. Tinna hefur auk þess leikið í fjölda kvikmynda, meðal annars í Atómstöðinni, Hvítum mávum, Í skugga hrafnsins, Svo á jörðu sem á himni og Ungfrúin góða og húsið. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir hlutverk sín í kvikmyndum, hér heima og erlendis. Tinna var forseti Bandalags íslenskra listamanna um árabil áður en hún tók við starfi þjóðleikhússtjóra í janúar 2005.

Ari Matthíasson
Ari Matthíasson tók við embætti þjóðleikhússtjóra þann 1. janúar 2015. Ari starfaði sem framkvæmdastjóri Þjóðleikhússins frá árinu 2010 til ársloka 2014. Hann hefur að baki leikaramenntun frá Leiklistarskóla Íslands og lauk MBA-námi í rekstrarhagfræði og Msc-námi í hagfræði. Hann starfaði sem leikari og leikstjóri frá árinu 1991 og einnig við stefnumótun, markaðsmál og framkvæmdastjórn.

- -

Upp