Gagnrýni

Hugmyndarík og fyndin sýning sem ristir dýpra

Ljósmynd: Menningarfélag Akureyrar

Leikdómur Hlínar Agnarsdóttur einnig birtur í Menningunni.

Leikfélag Akureyrar sýnir nú verkið Kvenfólk með  dúettinum Hundi í óskilum, þeim Eiríki G. Stephensen og  Hjörleifi Hjartarsyni, í Samkomuhúsinu á Akureyri. Í verkinu er gloppóttri kvennasögu Íslands gerð skil, undir leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

„Þeir eru að taka fyrir ósýnilega sögu íslenskra kvenna í Íslandssögunni og spyrja mjög fyndinnar spurninga í upphafi: hvernig lifði þessi þjóð af ef það voru engar konur í landinu? Því það er svo sjaldan minnst á konur í allri okkar sögu,“ segir Hlín Agnarsdóttir.

Um er að ræða söng og leik í kabarett- og revíuformi og tekst tvíeykinu að koma frá sér bæði leiknum texta og ekki síst sungnu efni á mjög skemmtilegan hátt segir hún.

Hlín segir það alls ekki skemma fyrir að tveir miðaldra karlar séu að flytja leikverk um sögu kvenna. „Það verður bara að segjast eins og er að það er kannski kominn tími til þess að þið karlmenn reynið að hafa vit fyrir öðrum karlmönnum sem eru ekki búnir að fatta þetta; að bæði konur og karla geta og ættu að vera femínistar.“

Hlín segir að sýningin sé vel heppnuð, skemmtileg, fyndin og hugvitssamlega sett upp. „Þetta er mjög vel á svið sett af Ágústu Skúladóttur. Hún er með svo fínar hugmyndir í uppsetningunni og hún nýtur þess að vera með fullt af öðrum frábærum sviðslistamönnum. Svo gerir Íris Eggertsdóttir mjög skemmtilega umgjörð og búninga,“ segir Hlín. „Þar að auki eru þeir svo hugmyndaríkir sem músíkantar,“ bætir hún við, en tvíeykið smíðar sín eigin hljóðfæri úr ólíklegustu hlutum, eins og sjálfvirkri þvottavél og nærfatnaði.

En þetta er ekki eintómt sprell og gaman. „Þetta ristir dýpra og á vissan hátt má segja að þetta sé mjög pólítískt kvennaleikhús, þetta er svolítið boðandi og predikunartónn í þessu en engu að síður er þetta upplýsandi og fræðandi um leið og þetta er mjög skemmtilegt. Þetta höfðar til dálítið stórs hóps áhorfenda. Þetta er ekki bara fyrir miðaldra fólk heldur líka unga fólkið.“

- -

Upp