Gagnrýni

Hlín Agnarsdóttir: Svartlyng

Gagnrýnin er fengin af vef RÚV.

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Svartlyng er pólitísk ádeilda sem er skrifað beint inn í íslenskan samtíma. Ádeilan beinist fyrst og fremst gegn valdamesta stjórnmálaflokki á Íslandi, Sjálfstæðisflokknum. Spjótin beinast gegn ráðherrum hans og embættismönnum. Höfundurinn Guðmundur Brynjólfsson skrifar hárbeittan og fyndinn texta sem afhjúpar innihaldslausa og gelda orðræðu stjórnmálanna eins og hún birtist okkur almenningi oft á opinberum vettvangi.

Guðmundur og leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson leita fanga í máli sem skók þjóðfélagið fyrir rúmu ári síðan og fjallaði um uppreist æru, mál sem faðir þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, blandaðist inn í og varð til þess að ríkisstjórn hans sprakk. Þar átti barátta Bergs Þórs og fjölskyldu hans stóran þátt eins og flestum er kunnugt en einnig hreyfingin #höfum hátt sem varð til í kjölfarið. Allt leiddi þetta til afhjúpunar á nöfnum valinkunnra einstaklinga sem skrifuðu upp á meðmæli til uppreistar æru fyrir dæmda kynferðisglæpamenn.

Yfirhylming og allsherjar vanhæfni

Í ádeiluverki Guðmundar sem er reyndar skrifað í anda absúrdismans er Svartlyng ættin sú sem öllu ræður í þjóðfélaginu, hún teygir anga sína í allar áttir, nepotisminn eða frændhyglin er allsráðandi og að því er gert óspart grín og engum hlíft þótt engin nöfn séu nefnd. En undir öllu gríninu er annað og meira, harmleikur ungra kvenna sem vart voru komnar af barnsaldri þegar þær lentu í bókinni hans Robert Downey. Í þessu verki er hún ýmist kölluð svartbók eða hvítbók og verður miðlæg og táknræn fyrir spillingu, yfirhylmingu og allsherjar vanhæfni stjórnmálamanna. Já og reyndar fjölmiðlanna líka, því þeir koma við sögu í verki Guðmundar, hrinda atburðarásinni af stað með spurningum til ráðherrans og hans manna sem engin skiljanleg svör fást við.

Og þessi vanhæfni birtist okkur á sviðinu strax í upphafi þegar klósettrúllum er fleygt inn á sviðið og mynda allskonar munstur á sviðsgólfinu, munstur lyga, þvættings og siðleysis. Merkilegt rím við lok á annarri leiksýningu frá liðnu ári, Óvini fólksins í Þjóðleikhúsinu, þar sem klósettpappírnum var sturtað niður úr sviðsloftinu til að minna okkur á annan manngerðan óþverra í umhverfi og náttúru. Leikmynd Evu Völu Guðjónsdóttur er einföld og þjónar verkinu vel. Hún samanstendur af ótal klósettrúllum, nokkrum design plaststólum og tveimur glerturnum sem segir allt um þann heim sem persónur verksins hrærast í. Þær eru á kafi í skít sem þær kunna ekki að þrífa eftir sig, sitja ekki á ekta (valda) stólum og flýja inn í þrönga turna, lokuð rými til að breiða yfir og fela sannleikann en kafna þar að lokum.

Leikhópur í stuði

Leikhópurinn allur fer á kostum í þessari sýningu, það leikið og dansað um sviðið í tónlistaratriðum sem bæði styrkja og krydda uppsetninguna. Mestur þunginn hvílir á þeim

Sveini Ólafi Gunnarssyni sem leikur lyginn og sjálfbirgingslegan ráðherrann og Sólveigu Guðmundsdóttur í hlutverki taugaveikluðu ráðstýrunnar. Þeim fer fram með hverri sýningunni sem þau leika enda orðin hagvön, leika gjarna á móti hvort öðru. Orkustigið í leik þeirra er hátt en þau missa aldrei tökin, njóta þar ekki aðeins skemmtilegrar leikstjórnar Bergs Þórs heldur sviðshreyfinga Valgerðar Rúnarsdóttur sem á stóran þátt í sýningunni og leikur jafnframt hlutverk blaðakonunnar.

Hlutverk Valla undirmanns eða undirlægju ráðherrans var fáránlega skemmtilegt bæði af hálfu höfundar og í túlkun Benedikts Karls Gröndal, talandi um að vera handbendi einhvers jafnvel þegar hendurnar vantar á mann. Allt handapatið sem varð til í kringum persónu Valla var óborganlega fyndið og súrrealískt á köflum, ákaflega vel leyst af hálfu leikstjórans. Það var helst að hlutverk gluggaþvottamanns næði ekki að lifna á sama hátt og hinar persónurnar en Þór Túlínus gerði þó sitt besta til að spila úr því sem höfundur lagði upp með en gluggaþvottamaðurinn minnir pínulítið á stöðu fíflsins í verkum sumra valinkunnra, nefni engin nöfn, fíflið þykist ekkert vita neitt um bröltið í valdhöfunum en veit allt undirniðri.

Leikhús sem á ríkt erindi

Svartlyng er ein af þessum sýningum sem okkur bráðvantar svo oft í íslenskt leikhús, verk sem er skrifað beint upp úr og inn í samtíma okkar. Hér bregðast sviðslistamennirnir í Gral (Grindvíska atvinnuleikhúsið) strax við málum sem hafa sett samfélagið á annan endann, málum sem reynt hefur verið að þagga niður en eru svo alvarleg að ef ekki verður um þau fjallað er hætt við að harmleikurinn haldi áfram. Hér hefur tekist að skapa líflegt og skemmtilegt leikhús sem á ríkt erindi við okkur í dag ekki síst við stjórnmálamenn. Alþingismenn, ráðherrar og starfsfólk stjórnarráðsins ætti að drífa sig á sýninguna hið fyrsta.

- -

Upp