Gagnrýni

Hlín Agnarsdóttir: Ronja ræningjadóttir

Hlín Agnarsdóttir, leikhúsgagnrýnandi Menningarinnar á RÚV, var ánægð með söngleikinn um Ronju ræningjadóttur. Gagnrýnina má lesa á vef RÚV en þar má jafnframt sjá viðtal við Hlín.

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Getur eitthvað mistekist á leiksviði sem er eftir Astrid Lindgren? Ég held varla, sögur hennar eru einstakar að gæðum og snerta alla jafnt börn sem fullorðna. Þar á meðal er auðvitað sagan af Ronju ræningjadóttur sem við höfum séð tvisvar sinnum áður á íslensku leiksviði í Borgarleikhúsinu en nú setur Þjóðleikhúsið þessa skemmtilegu leikgerð eftir sögunni aftur á svið.

Að rjúfa hefndarmunstur

Ekki þarf að fjölyrða um vinsældir sögunnar af Ronju ræningjadóttur. Ronja tilheyrir sterku, skemmtilegu stelpunum hennar Astridar eins og Lína langsokkur, hún er fyrirmynd, stelpa sem veit hvað hún vill og lætur ekki vaða ofan í sig. Þessi undur fallega og skemmtilega saga af tveimur ræningjafjölskyldum sem eiga í stöðugum átökum er kjörið efni til að færa í leikbúning og þar er ævintýralegur heimur verksins, skrautlegar persónur og lífið í skóginum með öllu sem þar dylst og leynist, mesta áskorunin fyrir sviðslistamennina.

Inntak og boðskapur sögunnar er líka sígildur, deilur verða aldrei leystar nema með fyrirgefningu og sáttum, einhver þarf að hafa kjark til að rjúfa hefndarmunstrið sem viðheldur átökum, illdeilum og stríðum. Og það er engin önnur en Ronja sem gerir það í þessu verki með því að gera Birki son helsta andstæðings föður síns að bróður sínum og besta vini. Með þeim tekst einstök vinátta, lítil Rómeó og Júlísaga leynist í sambandi þeirra. Kærleikurinn sigrar allt að lokum.

Ævintýraleg leikmynd og umgjörð

Í uppsetningu Þjóðleikhússins er öllu tjaldað til að gera sýninguna um Ronju ræningjadóttur eftirminnilega og glæsilega. Fyrst ber að nefna sjálfa leikmynd Finns Arnars Arnarsonar sem nýtir hringsviðið til hins ítrasta við að skapa jafnt Matthíasarborg,  Helvítisgjána og undraveröld skógarins með aðstoð lýsingarinnar sem var verk Ólafs Ágústs Stefánssonar. Gleði og sorg ræningjanna, dularfullar verur og ógnvekjandi nornir njóta sín til fullnustu í þessu magnaða umhverfi Finns Arnars. Ekki var annað að sjá en allt gengi upp í umgjörð sýningarinnar, leikmyndin þjónaði sínum tilgangi og skapaði fjölbreytt rými fyrir ævintýralega sviðsetningu. Þar komu líka til alveg sérlega vel hugsaðir búningar Maríu Th. Ólafsdóttur sem minntu á frumbyggjaklæðnað með hippaívafi bæði í formi og litasamsetningu.

Vinsælustu þjóðleikararnir

Ekki voru gervin síðri, þar áttu hárkollur og hárgreiðsla stóran þátt í að skapa persónurnar eins og t.d. Matthías föður Ronju og hana Skalla-Pésu sem í bókinni er elsti ræninginn í Matthíasarborg og heitir Skalla-Pétur. Það eru þjóðleikararnir Örn Árnason og Edda Björgvinsdóttir sem leika þessi hlutverk og það er engu logið um hversu stóran sess þau skipa í hugum og hjörtum áhorfenda. Örn var nær óþekkjanlegur í hlutverkinu sem hann leysti svo auðvitað af sinni alkunnu snilld. Það sama má segja um eina vinsælustu leikkonu þjóðarinnar, hér sýndi hún okkur nýja hlið á sér og gervi hennar var sömuleiðis vel af hendi leyst. Skalla-Pésa er tragíkómísk persóna sem við fáum strax ást á. Edda bregst ekki bogalistin frekar en fyrri daginn.

Stór þáttur í sýningunni er auðvitað tónlistin og flutningur hennar eftir Sebastian hinn danska og ekki var flutningur hennar síðri í meðförum leikaranna. Að vísu var undirleikur aðeins of hátt stilltur í hljóðkerfinu í upphafi sýningar, sem auðveld er að laga. Auðvitað báru sumir af í söngnum eins og lög gera ráð fyrir, það þarf að velja rétt fólk á réttan stað. Ein af þeim er Vigdís Hrefna Pálsdóttir sem lék Lovísu móður Ronju. Hún syngur undurfallega, hefur hreinan og fallegan tón og  skilar hlutverkinu sínu frábærlega vel, er reffileg og ákveðin í framgöngu enda fyrirmynd Ronju. Það var líka fengur að þeim Birni Inga Hilmarssyni og Oddi Júlíussyni í hlutverkum Breka og Litla-Skratta.

Hrífandi leikur Sölku Sólar

Stjarna sýningarinnar er auðvitað Salka Sól Eyfeld í hlutverki Ronju sem átti ekki í nokkrum erfiðleikum með að skapa Ronju á leiksviðinu. Í fyrsta lagi hefur Salka Sól mjög hrífandi sviðsnærveru, hún er sjarmerandi, það geislar af henni. Henni tekst vel að sýna okkur sjálfstæði og sjálfsöryggi Ronju með líkams- og raddbeitingu sinni. Það var hreinn unaður að hlusta á samtöl hennar og Birkis og reyndar allan textann í sinni heild sem Þorleifur Hauksson á heiðurinn að. Kjarnyrt, fallegt og ríkt tungumál sem minnir okkur á hvað íslenskan hefur til brunns að bera, gott fyrir ungviðið að heyra þessi orð streyma úr munni frábærra leikara. Og auðvitað var söngur Sölku Sólar óaðfinnanlegur, rétt manneskja á réttum stað hér. Og það sama sem verður að segjast um Sigurð Þór Óskarsson sem fyrir löngu hefur sannað að hann er með bestu leikurum okkar af yngri kynslóð, nákvæmur í öllu sem hann gerir hvað varðar tilsvör, svipbrigði og tímasetningar. Hann lék Birki af sama þrótti og sjarma og Salka Sól lék Ronju og saman voru þau til alls vís og mikil og falleg harmonía sem myndaðist milli þeirra á leiksviðinu.

Rassálfar í uppáhaldi

Stór þáttur í uppsetningunni er auðvitað hreyfing og dans í fjöldaatriðum einkum í ræningjahópnum á heimili Ronju þar sem ræningjarnir sýndu listir sínar og hundakúnstir. Leikarahópnum bættist þar óvæntur liðsauki af ungu fimleikafólki sem fór heljarstökk á leiksviðinu og jók á áhrif kóreógrafíunnar Auðvitað má ekki gleyma öllum börnunum og unglingunum sem tóku þátt í sýningunni og léku hlutverk skógarnorna, grádverga og rassálfa en þeir síðastnefndu voru í sérstöku uppáhaldi hjá áhorfendum af skiljanlegum ástæðum.

Utan um þessa stóru og viðamiklu sýningu heldur leikstjórinn Selma Björnsdóttir sem  stjórnar öllu sínu liði af smekkvísi, öryggi og styrk. Það þarf mikla samhæfingu til að láta alla einstaka hluta sviðsetningarinnar virka sem eina heild og það hefur tekist hér með glæsibrag.

Selmu hefur tekist að skapa rétt jafnvægi milli allra þátta sýningarinnar, milli gleði og sorgar, óhugnaðar og fegurðar. Kærleikur og væntumþykja er það sem stendur eftir þegar sýningunni lýkur. Það má hiklaust mæla með þessari sýningu fyrir börn frá 5 ára aldri, hún er of löng fyrir yngri börn sem ég efast um að hafi úthald til að njóta hennar frá upphafi til enda.

- -

Upp