Gagnrýni

Hlín Agnarsdóttir: Fly me to the Moon

Leikdómurinn er fenginn af vef RÚV.

Hlín Agnarsdóttir skrifar:

Það er skiljanlegt að leikhúsin sem eru háð áhorfendum sínum vilji feta í sömu spor aftur þegar vel hefur gengið með verk eins og í þessu tilviki eftir Marie Jones en hún skrifaði verkið Með fulla vasa af grjóti sem sló rækilega í gegn í Þjóðleikhúsinu og það í þrígang.

Nú hefur Þjóðleikhúsið fengið hana aftur til liðs við sig og ekki aðeins sem höfund heldur leikstjóra líka. Hún setur verk sitt Fly me to the Moon á svið í Kassanum og það á greinilega að fylgja hinu verkinu á eftir í fyndni og væntanlega aðsókn líka. Í þetta sinn eru það tvær konur, ómenntaðar láglaunakonur frá Belfast sem halda uppi fjörinu á leiksviðinu. Þær eru starfsfélagar og vinkonur sem vinna við umönnun gamalmenna í heimahúsum.

Hvert er erindið?

Leikurinn gerist inn á heimili eins af skjólstæðingum þeirra sem andast óvænt í umsjá þeirra. Og þar með fer atburðarásin af stað, viðbrögð kvennanna við dauða mannsins og ýmsar freistingar til að bæta léleg efnaleg kjör sín verða að aðaluppistöðu verksins sem þróast skjótt út í farsa. Marie Jones kann öll trixin í farsabókinni, misskilningur og misskilning ofan leiða konurnar út á hála braut sem erfitt er að feta tilbaka. Jones kanna að skapa persónur, skrifar góða fléttu og er oft sniðug og orðheppin. Hún lætur konurnar reita af sér brandara, misgóða þó, svo sumir áhorfendur skella upp úr hvað eftir annað.

En ég spyr, hvaða erindi á þetta upp á svið í dag, jafn gamaldags og þetta er bæði að innihaldi og formi, þótt það sé fyndið á köflum? Og var ekki hægt að ganga lengra og aðlaga verkið að íslenskum aðstæðum í stað þess að halda sér jafnstíft í samfélag og menningu sem er ólík okkar þótt lágstéttin sé alls staðar eins, illa menntuð, fáfróð og fátæk eftir því nokkuð sem höfundurinn gerir sér mat úr og grínast með óspart. Saklaust er það svosem grínið en ekki nógu fyndið til lengdar, hvorki þegar konurnar tvær afhjúpa fáfræði sína og fordóma né heldur þegar plebbagangur þeirra er skotspónninn.

Snorri Freyr sá ágæti leikmyndahöfundur hefur ekki marga kosti þegar kemur að umgjörð sýningarinnar. Hann getur ekki annað en líkt eftir heimili ellilífeyrisþega sem kominn er að fótum fram og sú eftirlíking minnir meir á sjónvarpsleikmynd en leikhús. Það fer fyrir henni eins og mörgu öðrum natúralistískum leikmyndum, áhorfandinn sér bara eftirlíkingu sem verður leiðinlegt að horfa á til lengdar.

Eintóna og groddalegur leikur

Því miður varð leikurinn hjá leikkonunum tveimur sama marki brenndur, það var hreinlega leiðinlegt til lengda að sjá hversu eintóna hann var. Ekkert er jafn leiðinlegt í leikhúsi og leiðinlegur gamanleikur og sárt að sjá þegar jafnfrábær gamanleikkona og Ólafía Hrönn er, lendir á vitlausu spori. Það sama gildir um Önnu Svövu Knútsdóttur sem hér er að stíga sín fyrstu spor í Þjóðleikhúsinu en hún hefur sýnt og sannað áður að hún er hæfileikarík þegar kemur að gamanleik.

Ekki var beinlínis hægt að sjá eða skynja að þeim hafi verið leikstýrt neitt sérstaklega þegar kom að ferðalagi um leiksviðið sem var óttalega stefnulaust, leikurinn allur stór og groddalegur og raddbeiting hávær rá upphafi til enda. Það vantaði tilfinnanlega alla taktskiptingu og blæbrigði í leikinn þannig að blessaðar konurnar tvær sem allt verkið snerist um vektu einhverja samúð og yrðu manni nákomnar.

Þessi uppsetning Þjóðleikhússins vekur upp margar spurningar um listræna stöðu leikhússins, verkefnaval og markaðsmál. Var virkilega ekki hægt að standa betur að þessari uppsetningu með fullri virðingu fyrir höfundi og leikstjóra? Eða er þetta nógu gott í bolinn ef hann kemur þá í leikhúsið til að horfa á sjálfan sig.

- -

Upp