Fréttir

Hin dásamlega Matthildur

Gagnrýni eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur. Tekin frá Visir.is

Söngleikurinn Matthildur er að slá í gegn í Borgarleikhúsinu og vekur verðskuldaða athygli á yndislegri bók eins besta barnabókahöfundar sem heimurinn hefur átt. Bókin var nýlega endurútgefin hér á landi vegna sýninga á söngleiknum.

Matthildur er ein ástsælasta persóna sem Roald Dahl skapaði á sínum mjög svo farsæla ferli. Hún er undrabarn, hreinlynd, heiðarleg, kappsöm og með sterka réttlætiskennd. Meinið er að hún lifir og hrærist í umhverfi þar sem hæfileikum hennar er ekki veitt nein athygli.

Fjölmargar bækur hafa verið skrifaðar um þjáningar munaðarleysingjans og koma þá Oliver Twist og Harry Potter upp í hugann. Hin sláandi staðreynd er að það eru foreldrar Matthildar sem vanrækja hana, tilvist hennar er þeim beinlínis til ama og þau telja hana fávísa og heimska. Matthildur þarf að spjara sig og til að það takist þarf hún að sýna styrk og kænsku. Það sakar svo sannarlega ekki að hún býr yfir undraverðum hæfileika sem nýtist henni einkar vel.

Hemingway heillar

Roald Dahl taldi sig hafa því hlutverki að gegna að laða börn að bóklestri. Í barnabókaflóru heimsins hlýtur Matthildur að vera bók­elskasta barnið. Þriggja ára hefur hún kennt sér að lesa og rúmlega fjögurra ára er hún búin að lesa allar barnabækurnar á bókasafninu og farin að lesa fullorðinsbækur. Dahl birtir lista yfir meistaraverkin sem hún les, og er um leið greinilega að beina athygli ungra lesenda sinna að þeim og hvetja þá til lesturs. Um Hemingway segir Matthildur:

„Hann segir hlutina þannig að mér finnst eins og ég sé á staðnum að fylgjast með öllu.“ Bókavörðurinn segir að góðir rithöfundar beiti þessu stílbragði og gefur Matthildi eitt besta ráð sem hægt er að gefa lesanda: „Hafðu ekki áhyggjur af því sem þú skilur ekki … Hallaðu þér bara aftur og leyfðu orðunum að dansa í kringum þig eins og tónlist.“

Matthildur kvartar undan því að það vanti húmor í bækur C.S. Lewis og segir Tolkien einnig skorta kímnigáfu. Hún segir að allar bækur fyrir börn ættu að geyma húmor, og er þar örugglega að enduróma skoðanir Dahls.


Barátta góðs og ills

Matthildur er ekki síst bók um bækur og töfraheima bóka. Söguþráðurinn sjálfur snýst hins vegar um samband barna og fullorðinna. Þar kemur grimmdin við sögu og líkamnast í skólastjóranum skelfilega, Krýsu, sem allir hræðast. Margt er kómískt í fari foreldra Matthildar sem eru sauðheimskir, en Krýsa er ill út í gegn. Hrollur hlýtur að fara um saklausar litlar sálir í hverjum þeim kafla þar sem Krýsa kemur við sögu. Allt bráðnar í návist þessarar ógurlegu konu, líka járnstangir. Hún er morðingi sem hefur lagt sig sérstaklega fram við að gera líf frænku sinnar, Unu, sem ömurlegast.

Vitanlega fer allt vel að lokum í bók þar sem hið góða og illa tekst á. Fallegustu lýsingar bókarinnar fjalla um hina hreinu og tæru vináttu milli Unu og Matthildar sem ekkert fær unnið á.

Ekki er svo annað hægt en að bera lof á hinar stórskemmtilegu teikningar Quentins Blake.

- -

Upp