Fræðsla

Heilt myndver á sviðinu

Breska Þjóðleikhúsið frumsýndi í fyrra leikritið Network með stórleikaranum Bryan Cranston í aðalhlutverki. Leikritið er byggt á samnefndri kvikmynd frá árinu 1976 og fjallar um fréttamann sem á erfitt með að ná upp áhorfstölum. Þegar hann tekur svo brjálæðiskast í beinni útsendingu slær hann algjörlega í gegn og verður vinsælli en nokkru sinni fyrr.

Í uppsetningu National Theatre á verkinu var mikið notast við kvikmyndatækni. Leikmyndin er heilt sjónvarpsmyndver, tæknimenn eru staðsettir á sjálfu sviðinu og myndatökumenn ferðast um sviðið og fanga tilfinningaþrungin augnablik. Sýningin er þannig einhverskonar blanda af leikhúsi og kvikmynd en nánari útskýringu á þessari skemmtilegu blöndu má sjá í myndbandinu hér að ofan.

Bryan Cranston hlaut Olivier verðlaun fyrir leik sinn í verkinu. Sýningum lauk fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsi Breta fyrr á árinu en nýlega var tilkynnt að sýningum yrði haldið áfram í nóvember á þessu ári og nú í Cort leikhúsinu á Broadway.

- -

Upp