Fréttir

Harry Bretaprins söng Hamilton

Harry Bretaprins var meðal gesta á góðgerðarsýningu á hinum geysivinsæla söngleik Hamilton nýverið. Eftir sýninguna steig prinsinn á svið og ávarpaði sýningargesti og leikara. Áður en hann hóf ræðuna tók hann upp á því að syngja fyrstu tvö orðin í einu vinsælasta lagi verksins, „You’ll be back“. Lagavalið er afar viðeigandi, en persónan sem syngur lagið í söngleiknum er enginn annar en konungur Bretlands, Georg III, forfaðir Harrys.

Sýningin var haldin til styrktar góðgerðasamtökum Harrys sem bera nafnið Sentebale, en hlutverk samtakanna er að hjálpa HIV-smituðum börnum í Botswana og Lesotho. Á sýningunni söfnuðust yfir 300 þúsund pund fyrir málstaðinn að sögn BBC.

Michael Jibson, leikarinn sem leikur King George III í sýningunni, var að vonum glaður að fá að hitta prinsinn og eiginkonu hans, Meghan Markle. Hann póstaði mynd af samtali þeirra á Twitter og lét yfirskriftina „Já, hún er þung!“ fylgja með. Átti hann þar eflaust við risastóru kórónuna sem hann neyðist til að bera alla sýninguna.

- -

Upp