Fréttir

Griðastaður fer vel af stað

Leikritinu Griðastaður sem sýnt er um þessar mundir í Tjarnarbíó hefur verið gríðarlega vel tekið. Verkið hefur fengið fjögurra stjörnu dóma í bæði Fréttablaðinu og Morgunblaðinu og fengið jákvæðar viðtökur gagnrýnenda hjá Hugrás og Tímariti Máls og menningar.

Þessar góðu viðtökur eru sérstaklega ánægjulegar í ljósi þess að Griðarstaður er fyrsta verk hins nýútskrifaða sviðshöfundar Matthíasar Tryggva Haraldssonar og því greinilegt að Matthías á framtíðina fyrir sér sem leikhúslistamaður. Verkið er einleikur sem Matthías skrifar og leikstýrir en það er Jörundur Ragnarsson sem leikur eina hlutverk sýningarinnar.

Næstkomandi fimmtudag ætlar leikhópurinn að halda umræður eftir sýningu sem hluta af viðburðaröð Tjarnarbíós sem ber heitið Tannhjól. Jörundur og Matthías munu sitja fyrir svörum og ræða verkið og vinnuferlið. Auk þeirra mun Hrefna Hugosdóttir hjúkrunarfræðingur og fjölskylduráðgjafi taka þátt í umræðunum „og ræða m.a. afleiðingar þess að dauðinn og samtal um dauðann reynist vesturlandabúum þungbært viðfangsefni.“ (eins og segir í facebook-viðburðinum)

Miða á Griðastað má kaupa hér.

Facebook-viðburður sýningarinnar er hér.

Facebook-viðburður umræðanna er hér.

- -

Upp