Fréttir

GALDRAGÁTTIN, MANNAKORN OG LOKSINS ENGIN ORÐ

Helgin framundan er sneisafull af fjölbreyttum og skemmtilegum viðburðum í Menningarhúsinu Hofi og í Samkomuhúsinu.

Í kvöld munu tónlistarkonurnar Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir vefa saman ferðlag í tali og tónum í tilefni að því að um þessar mundir eru 100 ár liðin frá útgáfu Svartra fjarða, fyrstu ljóðabókar Davíðs Stefánssonar. Flutt verða ný lög sem samin eru sérstaklega að þessu tilefni.

Á föstudagskvöldið stígur Mannakorn á svið Hofs. Hver man ekki eftir lögum eins og Reyndu aftur, Einhverstaðar einhvern tímann aftur, Elska þig, Braggablús, Gamli góði vinur, Ég elska þig enn, Óralangt í burtu, Á rauðu ljósi, Sölvi Helgason, Samferða, Garún og Ó þú? Hljómsveitin Mannakorn kemur mjög sjaldan fram á tónleikum núorðið og því er hér um algjörlega einstakan viðburð að ræða enda runnu miðarnir út eins og heitar lummur.

Á laugardaginn mun myndlistarmaðurinn Halldór Ragnarsson opna sýningu sína, Loksins engin orð, í Hofi. Opnunin hefst klukkan 16 og eru allir velkomnir.

Á sunnudaginn verða tónleikar í Hömrum þar sem íslenska sönglagið er skoðað allt frá fyrsta íslenska sönglaginu sem vitað er um til tónsmíða 20. aldar til splunkunýrra tónsmíða Páls Ivans Pálssonar. Hildigunnur Einarsdóttir og Guðrún Dalía hafa getið sér gott orð fyrir lifandi og einlæga túlkun íslenskra sönglaga. Það er Tónlistarfélag Akureyrar sem stendur fyrir þessum viðburði en tónleikarnir hefjast klukkan tvö.

Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist verður sýnt í Samkomuhúsinu á sunnudaginn klukkan 16. Sýningin er sú næst síðasta. Ekki verður hægt að bæta við sýningum vegna anna í Samkomuhúsinu. Galdragáttin hefur fengið frábærar viðtökur og dóma gagnrýnenda og nú fer hver að verða síðastur að sjá þetta ævintýralega skemmtilega leikrit.

Það er því ljóst að framundan er fjölbreytt helgi framundan þar allir ættu að geta fundið sér afþreyingu við sitt hæfi. Sjáumst í Menningarhúsinu Hofi og Samkomuhúsinu um helgina!

Grein frá Menningarfélagi Akureyrar.

- -

Upp