Fréttir

Fyrsti samlestur á Kabarett hjá LA

Á mánudaginn var haldinn fyrsti samlestur á söngleiknum Kabarett sem verður frumsýndur í Samkomuhúsinu á Akureyri í lok október.

Leikstjóri sýningarinnar er Marta Nordal en tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Hinn breski Lee Proud verður danshöfundur verksins, en hann hefur getið sér gott orð sem danshöfundur í söngleikjum Borgarleikhússins undanfarin ár.

Með helstu hlutverk í Kabarett á Akureyri fara Ólöf Jara Skagfjörð, Hákon Jóhannesson, Karl Ágúst Úlfsson og Andrea Gylfadóttir. Ólöf Jara lærði leiklist í New York og hefur verið búsett þar síðustu ár og því ekki mjög sýnileg á íslensku leiksviði. Áður en hún fór út í nám lék hún þó töluvert á sviði hér heima og ættu því einhverjir að muna eftir henni úr söngleikjunum Grease, Buddy Holly eða Ólíver! 

Hákon Jóhannesson fer með hið krefjandi hlutverk M.C. í sýningunni. Hákon er nýútskrifaður leikari frá Listaháskóla Íslands en á þessu leikári mun hann einnig leika í uppfærslu Þjóðleikhússins á Jónsmessunæturdraumi. Ekki amalegt fyrsta leikár fyrir þennan unga og efnilega leikara.

- -

Upp