Fræðsla

Dulargervi CIA njósnara mikil list

Joanna Mendez fór eitt sinn fyrir dulargervadeild bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Eins og gefur að skilja þurfa njósnarar stundum að dulbúa sig og það getur skipt sköpum fyrir öryggi þeirra og annarra að dulargervin séu raunveruleg.

Í nýlegu myndbandi frá Wired segir Joanna frá því hvernig njósnarar eru gjarnan dulbúnir. Hún talar um að markmiðið sé alltaf að manneskjan sé óþekkjanleg en þó ekki þannig útlítandi að hún veki of mikla athygli. Hárkollur, gleraugu, gervitennur og jafnvel grímur eru notaðar til að ná fram þessum útlitsbreytingum.

Í myndbandinu segist Joanna hafa farið á fund með George H. W. Bush með grímu fyrir andlitinu. Hana hafi hún svo tekið af sér á miðjum fundi til þess að sýna fram á gæðin.

En það er ekki einungis útlitið sem þarf að breytast að sögn Joönnu, því atferli er líka stór hluti af umbreytingarferlinu. Göngulag okkar getur til dæmis algjörlega breytt því hvernig við lítum út og það hvernig við borðum eða reykjum. Joanna bendir á að hægt sé að setja stein í skó sinn eða binda um hnéð til þess að breyta göngulaginu. Einnig sé hægt að setja gúmmíefni í munninn til þess að breyta því hvernig fólk talar.

Þetta áhugaverða viðtal má sjá og heyra hér að ofan. Kannski geta leikarar nýtt sér eina eða tvær aðferðir sem Joanna minnist á í myndbandinu. Hvað er svosem leiklist annað en að dulbúa sig sem önnur manneskja?

- -

Upp