Fréttir

Brad Pitt og Jennifer Aniston verðlaunuð í nótt

Brad Pitt og Jennifer Aniston heilsast hér á SAG-verðlaunahátíðinni í nótt. Mynd: GETTY/EMMA MCINTYRE

Hin suðurkóreska Parasite var talin skarta besta leikarahópnum á SAG-verðlaunahátíðinni (Screen Actors Guild) sem fram fór í Los Angeles í nótt. The Crown þótti best mannaða þáttaröðin auk þess sem Joaquin Phoenix bætti við enn einni viðurkenningunni fyrir frammistöðu sína sem Jókerinn í samnefndri kvikmynd. Gula pressan vestanhafs hefur jafnframt gert sér mat úr því að Brad Pitt og Jennifer Aniston, fyrrverandi stjörnupar allra stjörnupara, voru bæði verðlaunuð í nótt.

Screen Actors Guild er stéttarfélag bandarískra leikara en þetta var 26 árlega hátíð félagsins. Eftir pólítísk Golden Globe-verðlaun héldu kynnar og verðlaunahafar næturinnar sig á persónulegu nótunum, að frátöldum Robert de Niro sem verðlaunaður var fyrir ævistarf sitt í kvikmyndum. Hann sagðist hafa fullan rétt á því að tjá sig um menn og pólítisk málefni, eins og allir aðrir bandarískir borgarar. Hann beindi orðum sínum að Donald Trump Bandaríkjaforseta þegar hann talaði um muninn á réttu og röngu, almennri skynsemi og valdníðslu.

Eftir dræmar viðtökur áhorfenda tókst síðustu þáttaröð Game of Thrones að næla sér í tvenn verðlaun. Þau féllu í skaut Peter Dinklage, sem talinn var besti leikarinn í dramaþáttaröð fyrir túlkun sína á Tyrion Lannister, auk þess sem áhættuleikarar þáttanna þóttu eiga viðurkenningu skilið. Leikarahópurinn í The Marvelous Mrs. Maisel þótti bestur í hópi grínmynda og leikararnir í The Crown í hópi dramaþátta.

Renée Zellwegger varð heiðruð sem besta leikkonan í kvikmynd og fyrrnefndur Joaquin Phoenix þótti besti leikarinn. Þá hlaut Brad Pitt verðlaun sem besti aukaleikarinn fyrir frammistöðu sína í Once Upon a Time … in Hollywood. Jennifer Aniston þótti besta leikkonan í sjónvarpsþáttaröð, en hún fer með hlutverk Alex Levy í The Morning Show.

Þakkarræða Aniston var af mörgum talin sú eftirtektarverðasta, en hana má sjá hér að neðan. Lista yfir sigurvegara kvöldsins má nálgast hér.

Grein frá Vísi.

- -

Upp