Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið skilar 89 milljóna króna rekstrarafgangi

Mynd: Kristín Eysteinsdóttir, borgarleikhússtjóri (borgarleikhus)

Leikfélag Reykjavíkur tilkynnti á aðalfundi sínum að heildarvelta félagsins, 2016-2107,  hafi aukist úr 1.454 mkr. í 1.659 mkr. milli ára eða um 14%.  Á sama tíma varð 7% hækkun á rekstrargjöldum þess.

Rekstrarafgangur félagsins varð 89 milljónir króna eða ríflega 5% af rekstrartekjum. En árið áður hafði verið 12 milljóna tap. Þessi niðurstaða er í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur frá síðasta ári, sem hafði það markmið að treysta stöðu félagsins með því að auka eigið fé þess. Þetta var gert í framhaldi af rekstrarúttekt sem unnin var að tilstuðlan Reykjavíkurborgar.

Rekstrarniðurstaðan réðst fyrst og fremst af velgengni þeirra leikverka sem voru í sýningu hjá leikfélaginu og góðri miðasölu, sem jókst um 20% á milli ára.  Jákvæð áhrif voru einnig af hagræðingu í rekstri og auknum tekjum af veitingasölu.

Reykjavíkurborg og stjórn Leikfélags Reykjavíkur fagna þessari niðurstöðu og horfa björtum augum til framtíðar.

 

- -

Upp