Fréttir

Borgarleikhúsið 30 ára

Mynd: Borgarleikhúsið

Borgarleikhúsið var vígt dagana 20.-22.október 1989.

Eftir að Leikfélag Reykjavíkur var orðið atvinnuleikhús og metnaðarfull nútímaleg leiklist komin í fullan vöxt kom fljótlega í ljós að gamla leikhúsið við Tjarnarbakkann var orðið of lítið fyrir starfsemina. Ástæða þótti til að bæta við sýningarrýmum og var leitað út fyrir Iðnó að hentugum leikrýmum. Sýningar voru haldnar í Tjarnarbíói um árabil sem og í Austurbæjarbíói, en margir muna sjálfsagt eftir fjörugum miðnætursýningunum þar á borð við söngleikinn Gretti. Á síðari hluta níunda áratugarins voru einnig sýningar settar á svið í gamalli vöruskemmu við Grandaveg við góðan orðstír.

Það var greinilega orðið aðkallandi að finna Leikfélaginu nýtt húsnæði sem myndi rúma alla starfsemi félagsins undir einu þaki og svara kalli tímans um aðstöðu fyrir nútíma leikhúsreksturs.

Leikfélagið hafði stofnað Húsbyggingarsjóð Leikfélags Reykjavíkur árið 1953 að frumkvæði Brynjólfs Jóhannessonar og fljótlega voru hafnar viðræður við borgaryfirvöld um staðsetningu nýs leikhúss en borgin hét öflugum styrk og stuðningi við framkvæmdina. Eftir að LR var orðið atvinnuleikhús stofnaði Reykjavíkurborg aðskilin byggingarsjóð vegna nýs atvinnuleikhúss í borginni, en í sjóðinn veitti borgin árlega veglegan styrk. Í mörg ár unnu félagsmenn ötullega að því að styrkja húsbyggingarsjóð með leiksýningum, skemmtunum og öðrum uppákomum undir slagorðinu „Við byggjum leikhús”. Leikfélagsfólk vann af óbilgirni, metnaði og festu að því að styrkja sjóðinn og eftir margra ára þrotlausa vinnu var ljóst að draumurinn gæti orðið að veruleika.

Snemma árs 1975 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur stofnskrá fyrir Borgarleikhúsið í Reykjavík. Segir þar m.a. að Leikfélagið og Reykjavíkurborg láti reisa sameiginlega hús til sjónleikjahalds í borginni sem rekið yrði sem sjálfstæð stofnun í eigu beggja aðila.

Arkitektar hússins voru ráðnir Guðmundur Kr. Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson, sem jafnframt er leikari, og voru teikningar þeirra samþykktar af borgaryfirvöldum og Leikfélagi Reykjavíkur í ágúst 1975.

31. október 1976 settist Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri upp í stórvirka vélskóflu og gróf fyrstu skóflustungu. Þetta mun reyndar vera í fyrsta sinn í sögu landsins sem fyrsta skóflustunga er tekin með þessum hætti. Tíu árum síðar lagði Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri, hornsteininn á 89 ára afmæli LR 11. janúar 1986 og 3. september 1989 var Leikfélaginu afhent lyklavöldin að Borgarleikhúsinu.

Borgarleikhús var opnað með pompi og prakt með hátíðarhöldum dagana 20.-22. október 1989 og voru við það tækifæri frumsýndar tvær nýjar leikgerðir á sögum Halldórs Laxness, Ljósi heimsins á Litla sviðinu og Höll sumarlandsins á Stóra sviðinu.

Grein frá Borgarleikhúsinu.

- -

Upp