Fréttir

Beyoncé og Taylor Swift verða kettir á hvíta tjaldinu

Algengt er að vinsælir söngleikir vestanhafs séu gerðir að kvikmyndum. Margar af vinsælustu kvikmyndum sögunnar hafa verið byggðar á sviðsverkum en sem dæmi um vinsælar kvikmyndir sem eru byggðar á söngleikjum má nefna Grease, Rent og The Rocky Horror Picture Show.

Variety birti á dögunum lista yfir Broadway söngleiki sem til stendur að kvikmynda. Framleiðsla á sumum myndanna er nú þegar hafin, en aðrar eru styttra komnar.

Cats

Cats eftir Andrew Lloyd Webber er einn farsælasti söngleikur allra tíma. Söngleikurinn var frumsýndur árið 1981, en hann fjallar um götuketti og sagan er byggð á barnabók. Nú stendur til að festa söngleikinn á filmu en það er Tom Hooper, leikstjóri söngleikjakvikmyndarinnar Les Misérables, sem mun leikstýra. Jennifer Hudson mun leika aðalköttinn Grizabellu en önnur hlutverk verða meðal annars í höndum poppstjörnunnar Taylor Swift, spjallþáttastjórnandans James Corden og goðsagnarinnar Sir Ian McKellen.

Wicked

Einn vinsælasti söngleikur síðari ára er fjölskyldusöngleikurinn Wicked. Sagan fjallar um Elphöbu og Glindu, tvær nornir sem áhorfendur þekkja úr sögunni um Galdrakarlinn í Oz. Höfundar söngleiksins, Stephen Schwarz og Winnie Holzman, hafa nú tilkynnt að þau séu að vinna í að endurskrifa söguna fyrir hvíta tjaldið. Til stendur að bæta að minnsta kosti tveimur lögum við söngleikinn, en stefnt er að því að Wicked verði frumsýnd í kvikmyndahúsum um jólin 2019.

The Lion King

Hinn upprunalega Konung Ljónanna frá 1994 ættu allir að þekkja. Kvikmyndin var síðan gerð að söngleik árið 1997 en nú ætlar Disney að venda kvæði sínu í kross og gefa út tölvugerða endurgerð af kvikmyndinni. Framleiðsla á myndinni er nú þegar hafin og stefnt er að því að frumsýna hana sumarið 2019. Það eru engar smá stjörnur sem koma til með að ljá persónum myndarinnar raddir sínar en sem dæmi mun Beyoncé tala fyrir ljónastelpuna Nölu, Donald Glover mun leika Simba og Seth Rogen mun ljá vörtusvíninu Púmba rödd sína.

Grein Variety um söngleiki sem til stendur að kvikmynda má lesa hér.

- -

Upp