Klukkan ellefu heldur söngkonan Ellen Kristjánsdóttir tónleika á Vísi.
Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröðinni Samkoma sem er í beinni útsendingu hér á Vísi klukkan ellefu á morgnana. Það þýðir að tónlistarmennirnir flytja tónlist sína á afslappaðan máta yfir kaffibollanum.
Vísir hefur fengið leikstjórann Ágúst Bent til liðs við sig til að halda utan um tónleikana og er framleiðslan í höndum Skjáskots. Í gær kom söngvaskáldið Teitur Magnússon fram. Á morgun er komið að Skítamóral og á föstudag mætir Sturla Atlas til leiks.
Ellen Kristjánsdóttir er ein ástsælasta söngkona Íslands. Hún hefur í fjölda ára starfað með mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins ásamt því að gefa út eigið efni. Með Ellen koma fram Þorsteinn Einarsson og Gaukur Davíðsson.
Í tónleikaröðinni Samkoma mæta þekktir íslenskir tónlistarmenn og flytja tónlist sína á afslappaðan máta yfir morgunbollanum. Tónleikarnir eru unnir í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Kjarvalsstofu.
Grein frá Vísi.
