Fréttir

Anna Svava á svið í Þjóðleikhúsinu

Leikkonan Anna Svava Knútsdóttir mun stíga á svið í Þjóðleikhúsinu á næstunni. Hún mun taka að sér hlutverk í verkinu Fly me to the Moon ásamt Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, en þær munu leika einu tvö hlutverk sýningarinnar. Til stóð að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir tæki hlutverkið að sér en hún hefur nú þurft að stíga til hliðar af persónulegum ástæðum. Anna Svava útskrifaðist sem leikkona úr Listaháskóla Íslands árið 2007 og hefur hún getið sér gott orð sem grínisti síðan þá. Hún hefur stigið á svið sem uppistandari og leikið aðalhlutverk í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Ligeglad. Það er því mikill fengur fyrir Þjóðleikhúsið að fá þessa frábæru grínleikkonu til liðs við sig.

Fly me to the Moon er gamanleikur eftir Marie Jones, höfund leikritsins Með fulla vasa af grjóti sem sló rækilega í gegn á Íslandi á sínum tíma. Verkið fjallar um Francis og Lorettu sem vinna báðar sem aðstoðarkonur 84 ára gamals manns sem er mikill aðdáandi Franks Sinatra. Marie Jones mun sjálf leikstýra verkinu sem verður frumsýnt í Kassanum nú í haust.

- -

Upp