Borgarleikhúsið

Allt sem er frábært í Borgarleikhúsinu

Fyrsta frumsýning næsta leikárs í Borgarleikhúsinu verður sýningin Allt sem er frábært, eða Every Brilliant thing eins og hún heitir á ensku. Leikritið, sem er einleikur, er eftir Duncan MacMillan, sem skrifaði líka Andaðu, Fólk, staðir og hlutir, er einskonar gleðieinleikur um depurð.

Valur Freyr Einarsson, eini leikarinn í sýningunni, gerir í þessu sérstæða verki lista yfir allt sem er frábært í heiminum. Með aðstoð áhorfenda, sem taka virkan þátt í sýningunni, gerir hann atlögu að depurðinni og lífsleiðanum – og segir í leiðinni hrífandi sögu af ást, sorg og ís með dýfu.

Leikritið verður frumsýnt á Litla sviði Borgarleikhússins föstudaginn 14. september. Ólafur Egill Egilsson er leikstjóri, Kristín Eiríksdóttir þýddi leikritið, Brynja Björnsdóttir er með sér um leikmynd og búninga, Þórður Orri Pétursson sér um lýsingu, Garðar Borgþórsson um tónlist, Baldvin Þór Magnússon um hljóð og aðstoðarleikstjóri er Hlynur Páll Pálsson.

Fréttin er fengin af vef Borgarleikhússins.

- -

Upp